Sjöfn Sæmundsdóttir og Mailinn Soler stíga fram og standa við bakið á Bryndísi Ásmundsdóttur, söng- og leikkonu, sem lýsti ofbeldi sem hún sagðist hafa orðið fyrir af hálfu barnsföður síns yfir þriggja ára skeið.
Sjöfn og Mailinn voru báðar í sambandi með sama manni og Bryndís og segjast hafa sömu sögu að segja af honum.
„Ég flúði land til að komast undan honum,“ segir Sjöfn í samtali við DV.
„Við höfum ákveðið að stíga fram og standa við bakið á Bryndísi og staðfesta að við höfum sömu sögu að segja. Við höfum allar fengið óteljandi hvetjandi skilaboð og ætlum að stíga fram eftir margra ára þögn og segja okkar sögur,“ kemur fram í færslu Sjafnar á Facebook, sem hún gaf DV leyfi til að deila með lesendum.
„Það er alls ekki auðvelt en tíminn er svo sannarlega kominn. Það er mannskemmandi að vera í svona ofbeldissambandi, ekki bara fyrir okkur mæðurnar heldur líka fyrir saklausu börnin.“
Sjöfn segir að saga Bryndísar sé eins og saga þeirra. „Enda breytast þessir ofbeldismenn því miður ekki, þó svo að við töldum okkur allar trú um að við værum sú eina rétta og hann hefði bara verið mjög óheppinn í kvennamálum.“