Viðbjóðsleg skilaboð sem skrifuð hafa verið á glugga í Fellahverfinu hafa vakið athygli íbúa hverfisins. „Farðu til fjandans helvítis útlendingaskíturinn þinn,“ stendur stórum stöfum á húsinu bakvið verslunina Mini Market, þar sem Gamla bakaríið var áður til húsa.
DV ræddi við íbúa í hverfinu um málið. Sonur íbúans hafði orðið var við skilaboðin á glugganum og ákvað að smella af mynd til að vekja athygli á viðbjóðnum. „Honum fannst þetta ógeðslegt,“ segir íbúinn í samtali við blaðamann. „Ég veit ekki hvenær þetta kom upp, það er bara ógeðslegt að gera svona.“
Í Facebook-hópnum Íbúasamtökin betra Breiðholt var í dag birt mynd af glugganum sem um ræðir. „Hvað er í gangi?“ spyr íbúinn sem deildi myndinni og í athugasemdunum furðar fólk sig á þessu sömuleiðis. „Þetta er bara bilun,“ segir til dæmis einn íbúi í athugasemd við myndina.
„Íslendingar eru svo góðhjartaðir. Bjóða alla velkomna með opinn faðminn,“ segir svo annar íbúi í kaldhæðni.