Þann 3. nóvember árið 2018 var framin hrottaleg líkamsárás fyrir utan Hagkaup í Skeifunni. Tveir ungir menn veittust, ásamt fleirum, að tveimur einstaklingum, slógu margsinnis í höfuð þeirra og bæði slógu og spörkuðu í búk þeirra. Við það féllu einstaklingarnir niður í jörðina en ungu mennirnir spörkuðu þá margsinnis í höfuð þeirra og búk. Annar þeirra sem ráðist var á úlnliðsbrotnaði og hlaut áverka á enni sínu og höfði en hinn hlaut áverka í andliti.
Ungu mennirnir tveir voru kærðir vegna árásinnar og hlutu dóm vegna hennar í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í dómnum kemur fram að líkamsárásin hafi verið „sérlega hættuleg“ en báðir ungu mennirnir játuðu brot sín fyrir dómi. Þeir kröfðust þess báðir að þóknun skipaðra verjanda þeirra yrði greidd úr ríkissjóði og að þeir fengu enga refsingu eða vægustu refsingu sem lög leyfa.
Dómurinn ákvað að fresta skilorðsbundið ákvörðun refsingar ungu mannanna í tvö ár frá og með gærdeginum. Þeir voru þá báðir dæmdir til að greiða sakarkostnað vegna málsins en í kostnaðinum er innifalinn þóknun skipaðra verjenda þeirra. Sá sem var 17 ára þegar árásin fór fram þarf að greiða samtals 519.233 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs en sá sem var 18 ára þarf að greiða samtals 840.083 krónur.