Í gær birtu fjölmiðlar fréttir frá Lögreglunni á Suðurlandi þess efnis að komið hefðu upp atvik að undanförnu þar sem börn á Selfossi beita hvert annað ofbeldi, taka það upp á myndband og dreifa á samfélagsmiðlum. Málin eru rannsökuð í samvinnu lögreglu og barnaverndar.
Í tilkynningu lögreglu um málið segir:
„Í liðinni viku var unnið í nánu samráði við barnavernd Árborgar vegna myndskeiða sem fundust er sýna ofbeldi barna gegn hverju öðru á Selfossi. Vísbendingar eru um að nokkuð sé um að boðað sé til átaka og þau tekin upp og þeim síðan deilt á samfélagsmiðlum eða á netinu á einstökum síðum. Aðilar þeirra mála sem hér komu við sögu fengnir á stöð og rætt við þá ásamt foreldrum þeirra og barnavernd. Viðkomandi hafa ekki náð sakhæfisaldri en það dregur ekki úr alvarleika málsins. Foreldrar eru hvattir til að taka samtal með börnum sínum og gera þeim grein fyrir alvarleika þessa.“
Ljóst er að þessi vandi er ekki nýr á Selfossi og raunar engan veginn bundinn við það bæjarfélag, eins og mörg dæmi sanna. Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, býr á Selfossi og á ungan son sem varð fyrir ofbeldi sem fellur að ofangreindu mynstri, vorið 2019, er hann var 14 ára.
„Drengurinn minn lenti í þessu. Hann og bekkjarfélagi mæltu sér mót. Þegar minn drengur mætti á staðinn var þetta í raun fyrirsát. Bekkjarfélaginn ræðst á hann, hann er sparkaður niður, og svo sparkað í maga og rif á meðan hann lá á gangstéttinni svo stórsá á honum. Annar drengur var viðstaddur til að taka allt upp á síma sem var svo dreift um allan skólann á Spotify. Hann fer ekki einn út nema á hraðskreiðu farartæki eftir þetta,” segir Álfheiður, en aðdragandinn að atvikinu virðist hafa verið sá að drengjum sinnaðist við spilun á tölvuleik. Álfheiður segir að sinn drengur, sem er lágur vexti, geti verið orðhvatur og orðljótur í hita leiksins og líklega hafi hann sagt eitthvað miður heppilegt við þann sem veittist síðan hrottalega að honum. Honum sé eiginlegra að beita orðfæri fremur en líkamsburðum í átökum.
Syni Álfheiðar var gerð fyrirsát, hann hitti tvo drengi á götuhorni á Selfossi, annar þeirra beitti hann hrottalegu ofbeldi á meðan hinn tók aðfarirnar upp á snjallsíma, eins og áður segir.
„Þeir hittast þarna á götuhorni og drengurinn, sem er stór og stæðilegur, byrjar umsvifalaust að sparka í son minn svo hann fellur í götuna. Hann heldur síðan áfram að sparka í hann, í magann og víðar, á meðan hann liggur í götunni. Hinn drengurinn, sá sem var í fylgd með bekkjarfélaganum sem hafði boðað hann til fundar við þá, tekur síðan árásina upp á símann .”
Álfheiður frétti ekki af atburðinum strax því sonurinn hennar sagði ekki frá því sem hafði verið gert við hann. Telur hún að slíkt sé algengt á meðal barna og unglinga sem verða fyrir ofbeldi. Upptökunni var hins vegar dreift um unglingadeild skólans. Nokkrar áhyggjufullar stúlkur sem ofbauð myndbandið höfðu samband við skólahjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn hafði samband við Álfheiði.
„Það var fyrst þá sem ég sá áverkana á syni mínum og þeir voru svo ljótir að ég óttaðist að hann hefði fengið innvortismeiðsl og fór með hann á slysamóttöku,” segir Álfheiður en raunin hefur þó orðið sú að sonur hennar er miklu lengur að ná sér eftir ofbeldið andlega en líkamlega:
„Eftir þetta fór hann ekki í eða úr skóla án þess að vera annaðhvort keyrður með bíl eða vera á hraðskreiðu hjóli og þannig var það þar til hann var búinn með tíunda bekk,” segir Áfheiður.
Hún vildi hvorki kæra málið til lögreglu né barnaverndar þar sem gerandinn bjó við erfiðar fjölskylduaðstæður og hún vildi ekki auka á vanda hans með kærum. Hins vegar töldu skólayfirvöld að þau gætu ekki beitt sér í málinu þar sem það hafði ekki átt sér stað á skólalóð. Á hinn bóginn gætti skólinn þess ávallt eftir þetta að árásarmaðurinn væri ekki í nálægð við son Álfheiðar á skólatíma.
„Ég taldi ákjósanlegast að við, forráðamenn þessara þriggja drengja, settumst niður og ræddum þetta en það var ekki vilji fyrir því. Það eina sem ég gat gert var að ræða við drenginn minn, gera honum grein fyrir því að enginn ætti skilið ofbeldi, að meira ofbeldi væri aldrei svar við ofbeldi, hann gæti treyst því að ég stæði alltaf með honum og hann gæti óhræddur skýrt mér frá áföllum og uppákomum því hann myndi alltaf stýra ferðinni. Hann gaf mér til að mynda leyfi til að skýra frá þessu opinberlega núna.”
Að sögn Álfheiðar hefur sonur hennar ekki enn náð sér að fullu andlega eftir árásina og hefur glímt við töluverðan ótta og kvíða. Í tilefni frétta af sambærilegum málum á Selfossi undanfarið þykir henni rétt að stíga fram og greina frá málinu því ljóst er að foreldrar og aðrir sem hafa með uppeldi unglinga að gera þurfa að verða meðvitaðir um þennan varanlega vanda og ræða hann.