fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Hrafnhildur blæs lífi í kyrkingarumræðuna – „Strákurinn hrundi meðvitundarlaus í gólfið“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 15. febrúar 2022 17:30

Myndin er samsett - Mynd til vinstri: Hrafnhildur Sigmarsdóttir, höfundarmynd úr Fréttablaðinu - Til hægri: Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, blés í dag lífi í kyrkingarumræðuna sem tröllréð landinu í lok janúar á þessu ári. Í pistli sem birtist á Vísi í dag ræðir Hrafnhildur um kyrkingar og önnur blæti í sambandi við börn. Hún byrjar pistilinn á því að segja frá kyrkingum sem hún varð vitni að þegar hún var í grunnskóla.

„Þegar ég var 13 ára krakki gekk yfir einhver undarleg bylgja af nýrri áhættuhegðun í grunnskólanum mínum. Sú hegðun fólst í því að strákarnir voru að taka hvorn annan kyrkingartaki og láta líða yfir sig,“ segir Hrafnhildur í pistlinum. „Drifkrafturinn virtist vera spenna og staðfesting á tilvist og mikilvægi einstaklingsins meðal jafningja. Svokallað „Rite of passage“. Það hugtak vísar til ákveðinnar þol- eða þrekraunar sem einstaklingur þarf að yfirstíga í sínum menningarheimi til að vera samþykktur meðal jafningja.“

Hún segir að á þessum aldri og á þessum tíma hafi þolraunin verið kyrkingartak í örskamma stund. „Vakti þessi hegðun mikla athygli og hópuðumst við oft í kringum strákana þegar „sýning“ var í uppsiglinu. Ég man að það var einn strákur sem bauð sig oftast fram við að vera sá sem var tekinn kyrkingartaki. Hann var utangarðs og átti erfitt uppdráttar. Í dag veit ég, meðal annars út frá kenningum í þroskasálfræði og mannfræði að rökrétt er að álykta að þarna var barn sem sýndi vanlíðan sína í gegnum alvarlega áhættuhegðun knúna áfram af þörfinni að vera samþykktur meðal samnemenda sinna.“

Þetta tímabil tók þó snöggan enda þegar fyrsta slysið varð. „Kyrkingartímabilinu lauk svo þegar strákurinn hrundi meðvitundarlaus í gólfið og skallaði harðan marmarann með höfðinu sínu. Höfuðkúla birtist og stækkaði að því virtist hömlulaust fyrir augum okkar. Hann hlaut alvarlegt höfuðhögg. Við vorum öll skelkuð,“ segir Hrafnhildur.

„Í kjölfarið komu þeir fullorðnu inn í þennan nýmótaða menningarkima og fræddu okkur um skaðsemi og alvarleika hegðunarinnar. Í raun lásu þau yfir okkur og létu okkur heyra það þar sem strákurinn hefði geta hlotið langvarandi skaða af. Kyrkingartökunum lauk eftir þetta og höfuðkúla stráksins blessunarlega hjaðnaði.“

Hrafnhildur segir að þessi minning hafi komið upp þegar þær Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðingur og Sigga Dögg kynfræðingur rökræddu um það hvort það ætti að fræða börn um kyrkingar.

Kynferðislegir greiðar fyrir inngöngu í partý

Hrafnhildur ræðir þá um klám og hvaða áhrif það hefur á börn. „Klám er hugrænum ferlum barna hættulegt. Þetta er ekki geðþóttaskoðun lúins og fúins þriðju bylgju femínista heldur þekking byggð á gagnreyndum, margreyndum og sannreyndum rannsóknum,“ segir hún.

„Klám sýnir oftar en ekki konur á þjónandi hátt þar sem ekkert pláss er fyrir nánd, ástúð og mannlega tengingu. Eiginleikar sem skipta til dæmis sköpum fyrir þróun tilfinningargreindar og sterkrar sjálfsvitundar barna. Algjört skeytingarleysi um tilfinningar virðist ráðandi í klámi og ofuráhersla er lögð á líkamlega nautn annars aðilans sem nær undantekningarlaust er sískynja hvítur karlmaður.“

Hrafnhildur segir að rannsóknir hafi sýnt að fólk undir 18 ára aldri sem horfir á klám einu sinni í viku eða oftar sé líklegra til þess að prufa áhættusamara kynlíf án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum þess. „Þol þeirra fyrir klámefni eykst á þann hátt að sífellt grófara efni er skoðað og þau eru líklegri til að herma eftir því sem klámið sýnir,“ segir hún.

„Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þeir sem horfa á klám eru líklegri til að brjóta á einhverjum í kynlífi en þeir sem horfa ekki á klám. Íslensk rannsókn á vegum Barnaverndarstofu og fleirum frá 2006 sýndi að 7% stúlkna og 14% drengja sem horfðu á klám einu sinni í viku eða oftar höfðu greitt fyrir inngöngu í partý með kynferðislegum greiða. Tíðni þessara kynferðislegu greiða lækkaði eftir því sem þau horfðu sjaldnar á klám.“

Þá segir hún áhættuhegðun eða ögrandi kynferðislega hegðun hjá börnum ekki undantekningarlaust vera sammerkt blætishneigð eða annarri heilbrigðri kynhegðun.

„Þessi hegðun er meðal annars algeng í kjölfarið af kynferðisofbeldi, áfalli, tilfinningalegri vanrækslu og heimilisofbeldi í æsku. Börn eru útsettari fyrir að fá alvarlegar hugsanaskekkjur frá klámi þar sem öfgafull og oft hættuleg kynferðisleg viðmið eru venjuvædd og staðfest. Ungt fólk fær þaðan hugmyndir um til hvers er ætlast af þeim í kynlífi og það grefur stórkostlega undan sjálfsvitund barna og kennir þeim og venjuvæðir að stunda kynlíf á forsendum annarra.“

Hún bendir svo á forvarna- og fræðsluverkefni Stígamóta, Sjúk ást, en verkefnið var gert með því leiðarljósi að efla ungt fólk til að eiga samskipti og stunda kyníf á sínum forsendum með jafnrétti, samkennd og sterka sjálfsvitund að leiðarljósi.

„Þar er á skilmerkilegan hátt fjallað um skaðsemi skeytingarleysis, markaleysis og samskiptaleysis í kynlífi. Þar er einnig frætt um alvarleika kynferðislegra þvingana, til dæmis í formi stjórnunar, niðurlægingar og þvingaðs samþykkis. Samþykki er nefnilega þegar öllu er á botninn hvolft langt frá því að vera einfalt hugtak, hvorki í kenningu né tækni. Suð og tuð um kynlíf er til dæmis alvarlegt form af þvinguðu samþykki.“

„Heimurinn er ekki fullkominn“

Hrafnhildur ræðir meira um blætishegðun í pistlinum. Hún segir meðal annars að það verði ekki hjá því komist að misbeiting valds og ofbeldi sé oft falið undir hatti blætishegðunnar. „Frásagnir þúsunda þolenda kynferðisafbrota á Íslandi staðfesta það,“ segir hún.

„Kona getur mætt löggjafarvaldinu með heiftarlega áverka sem staðfestir áflog eða árás en gerandi getur sagt að hún hafi viljað þetta í leik og þar af leiðandi er þolandi orðinn ábyrgur fyrir skaða geranda. Allur efi er nær undantekningarlaust geranda í vil í íslensku réttarkerfi þrátt fyrir sjáanlega áverka. Í fullkomnum heimi ætti kynferðislegt ofbeldi ekki að kasta rýrð á blætishneigð eða hegðun í kynlífi þeirra sem sjálfráðir eru en heimurinn er ekki fullkominn. Langt því frá. Réttarstaða brotaþola í kynferðisafbrotamálum á Íslandi staðfestir það. Heimurinn er í raun meingallaður og sendir ótt og títt misvísandi skilaboð til þeirra sem minna meiga sín. Börn virðast verða fyrir sérstöku aðkasti núna.“

„Betra að kenna börnum að labba áður en maður fer að troða þeim í maraþon“

Að lokum ræðir Hrafnhildur um heilbrigða kynhegðun. Hún segir heilbrigð kynhnegðun felist ekki í því að samþykkja allar blætishneigðir eða blætishegðun án gagnrýni. „Heilbrigð kynhegðun felst í persónubundinni og gagnrýnni hugsun á alla hegðun tengda kynlífi þar sem drifkrafturinn á að vera valdefling og vellíðan í kynlífi á eigin forsendum. Engin skömm eða vanilluvæðing á að fylgja því að vera fylginn sjálfum sér,“ segir hún.

„Það má vera að ég virðist hljóma eins og púrítönsk tepra sem kvabbar út í þarfir fjórðu bylgju femínisma þar sem valdefling gengur út á að allt er ok. En eitruð jákvæðni getur líka verið skaðleg og knúið fólk til þess að samþykkja hluti sem það er ekki sammála en gerir það engu að síður til að forðast höfnun eða útskúfun ráðandi hópa. Sagan hefur oft sýnt okkur að það sem var róttækt verður oft ráðandi. Þannig hefjast oft byltingar sem rétta af ranglæti en þannig hafa líka ranghugmyndir og siðferðisleg gjaldþrot átt sér stað í mannkynssögunni. Það er aldrei gott að vera sá sem aðhyllist óblandaða stefnu, sérstaklega þá sem viðkemur hegðun eða siðgæði manna. Gagnrýnin hugsun, heiðarleg samtöl og faglegar rökræður þurfa alltaf að eiga pláss ofar athyglisþörf og kómísku hispursleysi þegar kemur að því hvernig við skiljum okkar félagslega veruleika og skilgreinum ný félagsleg hugtök. Að því sögðu er ég fullviss um það að það er betra að kenna börnum að labba áður en maður fer að troða þeim í maraþon.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda