Þrívíddaprentaðar byssur, það er að segja heimatilbúnar, eru framleiddar í nokkrum mæli hérlendis. Dæmi eru um að innvolsi í slíkar byssur, þá væntanlega skothúsi og öðrum viðkvæmum hlutum skotvopnsins, hafi verið smyglað til landsins samhliða fíkniefnasendingum og en einnig hafa nýlega komið upp á yfirborðið einfaldari útgáfur þar sem innvolsið, sem ekki er hægt að prenta, fæst einfaldlega út í næstu byggingarvöruverslun. Síðan er byssan prentuð í nokkrum hlutum og því næst sett saman.
Framleiðslan er tímafrek og ekki á hvers manns færi að nálgast og brúka þrívíddarprentara með slíkum hætti. Framleiðsla á hverri byssu getur tekið 1-2 mánuði og því leggja menn ekki í slíka vinnu nema fyrir hátt verð. Samkvæmt heimildum DV er söluverðið á hverri tilbúinni byssu rúmlega 500 þúsund krónur. Í ljósi þess hve tímafrek smíði hverrar byssu er þá er óljóst hversu margar hafa verið framleiddar hérlendis hingað til.
Tilvist þessara vopna hefur verið á hvers manns vörum í undirheimunum um skeið en segja má að í kjölfar skotárásarinnar í bílastæðahúsi í miðbænum hafi sá nöturlegi veruleiki skyndilega blasað við almenningi. Sjónarvottur taldi fyrst að árásarvopnið hefði verið vélbyssa en í frétt Vísis, sem byggð var á heimildum fréttastofunnar og heimildum DV ber saman um, var um þrívíddarprentaða byssu að ræða – líklega af gerðinni FGC-9.
FCG-9 leit fyrst dagsins ljós árið 2020 og er hönnuður byssunar sagður hafa gengið undir dulnefninu JStark1809 og var álitin hetja í samfélagi þeirra sem hafa áhuga á þrívíddarprentuðum vopnum. Samkvæmt ítarlegri umfjöllun Der Spiegel um slík vopn frá því í október í fyrra kemur fram að yfirvöld hafi, eftir ábendingar, haft upp á 28 ára gömlum manni frá Hannover, nefndur Jacob D, og handtekið hann. Eftir yfirheyrslur hafi manninum verið sleppt en tveimur dögum síðar lést hann úr hjartaáfalli.
Framleiðsla FCG-9 byssunnar er ódýrari en aðrar gerðir auk þess sem innvolsið er hægt að kaupa út úr búð, eins og áður segir, þó ekki sé á allra færi að setja slík vopn saman.
Í fréttaumfjöllunum síðustu daga hefur komið fram að lögreglan telur að skotárásirnar undanfarna daga séu einangruð atvik sem tengjast tilteknum einstaklingum frekar en að slíkar árásir séu komnar til að vera.
Af samtölum DV við aðila sem tengjast íslenskum undirheimum má ráða að viss kynslóðaskipting virðist vera að eiga sér stað. Mennirnir sem sótt hafa í að komast í skotvopnin séu all flestir ungir að árum eða í kringum tvítugt og virðast líklegri til að beita þeim. Hafa þessir heimildarmenn DV lýst því að þeir sem eldri eru hafi megna skömm á þessari þróun og dæmi séu þess að hinir eldri séu virkir í því að stemma stigu við útbreiðslu þessara vopna hérlendis.