„Það eru snjór og klaki framundan,“ segir Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, í spjalli við DV. Gífurlega mikill snjór er núna á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi en nú dregur úr úrkomu í bili og það er byrjað að hlýna. Búast má við töluverðu hvassviðri í eftirmiðdaginn sem mun valda skafrenningi.
„Það eru horfur á suðaustanstormi í kvöld og fram á nótt á suðvesturlandi. Það fylgir honum einhver úrkoma, en það er ekki víst að hún verði mikil,“ segir Haraldur um veðurhorfur næsta sólarhring. Það kólnar aftur ofan í skammvinn hlýindi og því má búast við miklum klaka:
„Úrkoman fer yfir í slyddu eða rigningu svo það blotnar dálítið í snjónum, en svo kólnar aftur, strax fyrir fótaferð, svo það tekur ekki mikið upp af þessum snjó sem kominn er,“ segir Haraldur sem spáir afleitri færð:
„Þetta gæti orðið skólabókardæmi um klakamyndun. Það margborgar sig að moka þeim snjó sem kemur í dag burt af tröppum og stéttum, annars er hætt við langlífum klaka.“
Varðandi veðurhorfur næstu daga segir Haraldur:
„Fram eftir vikunni verður hann svo um eða undir frostmarki. Engir stormar eru sjáanlegir, en líklega kastar hann úr sér éljum öðru hverju.“