Upp hafa komið tilvik á Selfossi að undanförnu þar sem börn beita hvert annað ofbeldi og taka upp á myndskeið sem dreift er á samfélagsmiðlum. Barnavernd og lögregla hafa blandast í málið.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi. Lögregla hefur rætt við gerendur í þessum málum ásamt foreldrum þeirra og barnavernd Árborgar en náið samstarf hefur verið milli barnaverndar og lögreglu í málinu. Lögregla bendir á að þó að gerendur í málunum sé undir sakhæfisaldri séu brotin ekkert minna alvarleg.
Tilkynning lögreglu er eftirfarandi:
„Í liðinni viku var unnið í nánu samráði við barnavernd Árborgar vegna myndskeiða sem fundust er sýna ofbeldi barna gegn hverju öðru á Selfossi. Vísbendingar eru um að nokkuð sé um að boðað sé til átaka og þau tekin upp og þeim síðan deilt á samfélagsmiðlum eða á netinu á einstökum síðum. Aðilar þeirra mála sem hér komu við sögu fengnir á stöð og rætt við þá ásamt foreldrum þeirra og barnavernd. Viðkomandi hafa ekki náð sakhæfisaldri en það dregur ekki úr alvarleika málsins. Foreldrar eru hvattir til að taka samtal með börnum sínum og gera þeim grein fyrir alvarleika þessa.“