Hrafn Jónsson hefur stofnað styrktarsíðu fyrir „hjólahvíslarann“ Bjartmar Leósson en Bjartmar hefur síðustu ár verið ötull við að finna týnd hjól og hefur gert það í sjálfboðastarfi.
Hrafn greindi frá því á Facebooksíðu sinni í gær að Bjartmar hafi fundið fyrir hann veglegt rafmagnshjól sem hafði verið stolið fyrir hálfu ári, og hafði Hrafn talið óhugsandi að hann fengi það nokkurn tíman aftur.
„Bjartmar er stórmerkilegur einstaklingur. Strax þegar hjólinu var stolið í ágúst hafði hann samband og sagðist ætla að skoða þetta fyrir mig. Sama dag hafði hann í gegnum sambönd sín fengið mjög skýra mynd af þjófunum úr öryggismyndavél. Ég sendi þessi gögn samviskusamlega til lögreglunnar sem segir ekki nokkurn skapaðan hlut um það. Ég í barnslegri einlægni trúði því að það væri bara tímaspursmál hvenær hjólið mundi finnast með svona sterk sönnunargögn, en ekkert gerðist. Ég reyndi tvisvar að hringja til að athuga stöðuna en „rannsakandi“ málsins var annaðhvort í fríi eða hafði ekki tíma til að tala við mig. Svo nokkrum vikum síðar fékk ég póst um að málinu hefði verið lokað,“ skrifaði Hrafn sem gefur ekki mikið fyrir áhuga lögreglunnar á þjófnaðnum en lofar Bjartmar því meira.
„Þessi glæpur var leystur í krafti eins manns, hans ástríðu og þess trausts sem hann fær í samfélaginu og hann biður ekki um neitt í staðinn. Hann á samt skilið að fá fullt, og meira en bara þakkir,“ segir Hrafn í færslunni og biður um aðstoð við að finna leið þannig að fólk geti styrkt það dýrmæta starf sem Bjartmar vinnur.
Nokkru síðar skrifar hann í athugasemd: „Ég þurfti hálfpartinn að snúa upp á hendurnar á Bjartmari að búa til Buymeacoffee síðu svo hægt sé að styrkja þetta ótrúlega starf sem hann vinnur algjörlega launalaust. En hér er hún komin. Endilega bjóðið Bjartmari upp á kaffibolla, eða fimm, eða tuttuguogfimm!“
Með því að smella hér má nálgast síðuna og styrkja starf Bjartmars.
Í lýsingu á styrktarsíðunni segir: Hér er hægt að styðja við starf sem hefur að gera með það að finna stolin reiðhjól. Hjól fyrir þónokkrar milljónir þegar fundist. Þetta er allt gert í sjálfboðavinnu á kvöldin og um helgar.
Þegar þessar línur eru skrifaðar hafa 59 þegar keypt kaffibolla og fæstir hafa keypt aðeins einn.