Halldóri Inga Sævarssyni brá heldur betur í brún þegar sérsveitin vakti hann í morgun, óvart. Eins og fram hefur komið í fréttum eru þrír í haldi lögreglu eftir skotárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Sá sem fyrir árásinni varð er ekki í lífshættu og tilkynnti málið sjálfur til lögreglu.
Halldór Ingi segir frá því á Twitter að hann hafi verið vakinn af óvenju mikilli hörku í morgun. „Ef að þið viljið vakna fljótt og örugglega mæli ég með því að fá sérsveitina til að banka uppá hjá ykkur á sunnudagsmorgni.. fátt sem vekur þig jafn fljótt og að sjá 6 sérsveitarmenn fara íbúðar villt,“ skrifar hann á Twitter og bætir við: „Hefði frekar valið vekjaraklukkuna, viðurkenni það. En svona gerist haha.“
Ef að þið viljið vakna fljótt og örugglega mæli ég með því að fá sérsveitina til að banka uppá hjá ykkur á sunnudagsmorgni.. fátt sem vekur þig jafn fljótt og að sjá 6 sérsveitarmenn fara íbúðar villt
— dóri Sævarsson (@halldoringi) February 13, 2022
Vinur Halldórs spyr hvort hann hafi ekki sloppið létt frá þessu og hann svarar: „Þeir báðu mig afsökunar á að hafa farið á ranga íbúð. Eftir að ég sagði þeim að ég héti dóri en ekki eitthvað annað.“
Vinurinn, Björn Friðgeir Björnsson, leggur til að honum verði bætt óþægindin á einhvern hátt. „Ættir að fá einhverja sárabót. Td eitt fríspil á hraðabrot milli 10 og 15 km of hratt.“
En aftur að alvöru málsins. Skotárásin átti sér stað um eitt í nótt, lagt hefur verið hald á skotvopn og bifreið í þágu rannsóknarinnar. Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem fram komu að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, en búast megi við annarri fréttatilkynningu frá lögreglu eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.
Þrír í haldi lögreglu eftir að maður var skotinn í miðbænum í nótt