Reglur um sóttkví verða afnumdar strax og losna því tæplega tíu þúsund manns úr sóttkví í dag. Frá miðnætti mega 200 manns koma saman í stað 50. Þetta er meðal þess sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi nú fyrir stundu. Þar samþykkti stjórnin að taka annað skref í afléttingu sóttvarna, tólf dögum á undan áætlun.
Grímuskylda gildir áfram innanhúss þa sem ekki er hægt að viðhalda nándartakmörkunum og einangrun þeirra sem eru með kórónuveiruna verður áfram við lýði.
Þá verður reglugerð um sóttvarnir í grunn- og framhaldsskólum afnumin þannig að loksins verður aftur hægt að halda böll og annað sem tengist félagslífinu.
Veitingastaðirnir verða áfram opnir til miðnættis og allir þurfa að vera farnir út fyrir klukkan eitt.
Verið er að meta stöðuna á landamærum og verður tilkynnt um væntanlegar breytingar þar bráðlega.
„Ef ekkert óvænt gerist þá getum við aflétt öllu í lok mánaðar,“ sagði Willum Þór við blaðamenn.