Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir fyrrverandi starfsmanni Alcoa Fjarðaáls sem sakfelldur var fyrir skjalafals, m.ö.o. að leggja fram falsað læknisvottorð til vinnuveitenda sinna.
Maðurinn slasaðist við störf sín í álverinu vorið 2019. Hann framvísaði læknisvottorði rafrænt á Teams-fundi sem lýsti hann óvinnufæran fram í ágústmánuð, þegar hið upprunalega læknisvottorð lýsti hann óvinnufæran inn í júní. Á grundvelli þessa gagns fékk hann hærri launagreiðslur frá fyrirtækinu en ella. Maðurinn póstlagði aldrei upprunalega pappírsvottorðið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um slíkt.
Maðurinn gekkst við því að dagsetningum á rafræna vottorðinu og pappírsvottorðinu bæri ekki saman en neitaði því að vera valdur að því.
Alcoa Fjarðaál sagði honum upp störfum og kærði hann síðan til lögreglu.
Héraðsdómur Austurlands dæmdi manninn sekan í júní árið 2021 og var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann áfrýjaði til Landsréttar sem staðfesti dóminn í dag.