Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því í tilkynningu að tveir menn séu núna í haldi vegna skotárásarinnar í Grafarholti í nótt. Annar mannanna er Hrannar Fossberg Viðarsson en hann er grunaður um að hafa skotið á par í Grafarholti í nótt.
Hrannar var handtekinn í morgun en hinn maðurinn var handtekinn eftir hádegi. Er sá maður á þrítugsaldri. Lagt var hald á ökutæki og skotvopn vegna rannsóknar málsins en tilkynningin er eftirfarandi:
„Tveir karlar eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skotárás í Grafarholti í nótt. Annar var handtekinn í morgun líkt og áður hefur komið fram, en hinn var handtekinn í umdæminu eftir hádegi. Mennirnir eru á þrítugsaldri. Þá hefur verið lagt hald á ökutæki og skotvopn, sem lögreglan telur að hafi verið notað við verknaðinn. Lögreglan var með mikinn viðbúnað eftir að tilkynning um skotárásina barst í nótt enda málið mjög alvarlegt. Embættið hefur notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við aðgerðir vegna þess.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, en fréttatilkynning verður aftur send fjölmiðlum eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.“