Tveir menn hafa verið handteknir vegna skotárásar í Grafarholti í nótt og telur lögreglan sig hafa hina seku í haldi. Annar mannanna var handtekinn í nótt en hinn eftir hádegi í dag. Lögreglan hefur lagt hald á skammbyssu sem beitt var í árásinni.
Þetta kemur fram í viðtali RÚV við Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Margeir segir að árásin hafi verið utandyra og margt fleira fólk hafi verið á vettvangi og hefðu hæglega fleiri getað slasast en þau tvö sem urðu fyrir skotum, karl og kona. Annað þeirra er alvarlega slasað en hitt ekki og vildi Margeir ekki greina frá hvort það væri karlinn eða konan sem er alvarlega slösuð/slasaður.
Mennirnir komu aðvífandi að hópi fólks og skutu á það en ekki liggur fyrir hvort báðir voru að skjóta eða annar þeirra og hvort skotvopnin voru eitt eða tvö. En Margeir telur báða mennina vera viðriðna árásina.
„Það var heppni að ekki fór verr. Það var allavega ekki þeim að þakka sem þarna voru að verki að ekki fór verr. Það er alveg ljóst að þarna stafaði mikil hætta og það voru fleiri aðilar í hættu sem voru á vettvangi. Þannig að þó að þessi tvö hafi orðið fyrir skotum að þá voru fleiri í hættu,“ segir Margeir.
Hann segir ennfremur að lögreglan líti málið mjög alvarlegum augum. Þetta sé þróun sem við viljum ekki sjá og stutt sé síðan svipuð atlaga átti sér stað, og er Margeir þar væntanlega að vísa til Rauðagerðismálið.
Annar mannanna sem er í haldi lögreglu vegna málsins heitir Hrannar Fossberg Viðarsson. DV fjallaði um hann fyrr í dag