fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Reynir tapaði fyrir Arnþrúði í Hæstarétti – „Ég óska Arnþrúði Karlsdóttur til hamingju með sigurinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 9. febrúar 2022 15:37

Reynir Traustason og Arnþrúður Karlsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég óska Arnþrúði Karlsdóttur til hamingju með sigurinn fyrir Hæstarétti. Dómurinn rýmkar að sjálfsögðu tjáningarfrelsið. Nú mun ég skoða framhaldið með Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni mínum,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, í tilkynningu á Facebook-síðu sinni.

Hæstiréttur felldi í dag kl. 14 dóm í langvinnu meiðyrðamáli Reynis gegn Arnþrúði. Arnþrúður fór með sigur af hólmi og var sýknuð af kröfum Reynis.

Reynir kærði Arnþrúði fyrir þrenn eftirfarandi ummæli eftirfarandi um sig sem hún lét falla í símatíma Útvarps Sögu:

„Sjáðu bara eins og […] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“

„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“

„Hvað heldurðu að séu margir, sem eru búnir að gráta úr sér augun yfir lygunum í þeim?“

Reynir vann í héraðsdómi en tapaði í Landsrétti

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi tvenn fyrri ummælin dauð og ómerk og dæmdi Arnþrúði til að greiða Reyni 300.000 krónur í miskabætur og 700.000 krónur í málskostnað.

Landsréttur sneri hins vegar dómnum við og sýknaði Arnþrúði af kröfum Reynis. Var það mat Landsréttar að ummælin hefðu varðað málefni sem ættu erindi til almennings og væru hluti af mikilvægri þjóðfélagsumræðu. Í slíku samhengi þyrfti að veita rúmt frelsi til tjáningar.

Reynir sótti síðan um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, sem var veitt. Í umsókn sinni um áfrýjunarleyfi sagðist Reynir álíta dóminn bersýnilega rangan. Landsréttur hefði gengið of langt með því að sýkna Arnþrúði af kröfum hans um ómerkingu ummælanna og gengið þannig á rétt hans til friðhelgi einkalífs.

Landsréttur hefði enn fremur ekki rökstutt nægilega vel þá niðurstöðu sína að ummælin teldust gildisdómar. Málið hafi einnig mikið almennt gildi hvað varðar stefnumörkun í niðurstöðu mála á þessu réttarsviði. Málið varði einnig mikilvæga hagsmuni Reynis, einkum friðhelgi einkalífsins.

Hæstiréttur taldi að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi, einkum um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Þess vegna var beiðnin samþykkt og málið tekið fyrir í Hæstarétti.

Umræða um þjóðfélagsmál njóti aukinnar verndar tjáningarfrelsis

Í dómi Hæstaréttar sem féll í dag segir meðal annars að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál njóti aukinnar verndar tjáningarfrelsis og að Arnþrúði yrði játað rúmt frelsi til umræddrar tjáningar. Það leiddi af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hefðu haslað sér völl á því sviði kynnu að þurfa að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan teldist eiga erindi við almenning.

Má því segja að Hæstiréttur telur að Reynir þurfi að þola harðari ummæli um sig en óþekktari einstaklingur þyrfti að þola. Um Reyni segir meðal annars í dómnum:

„Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að aðaláfrýjandi hafi verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. Þá hefur honum ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem telur hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum. Hann hlaut dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013. Í öðrum meiðyrðamálum gegn honum hafa dómstólar talið að hið rýmkaða tjáningarfrelsi sem fjölmiðlar hafa til að fjalla um samfélagsleg málefni sem eiga erindi í opinbera umræðu ætti að ganga framar friðhelgi einkalífs stefnenda í þeim málum.“

Dómurinn lagði mat á hvort ummæli Arnþrúðar um Reyni teldust vera gildisdómar eða staðhæfingar um staðreyndir. Var í því mati tekið til greina að Arnþrúður setti ummælin ekki fram sem lið í fréttaflutningi heldur skírskotaði hún til almannahagsmuna og tengdi ummælin stjórnmálum. Segir síðan ennfremur í dómnum:

„Lýsti hún andúð á umræðu og ósönnum fréttaflutningi sem tíðkaðist í þjóðfélaginu og taldi að Alþingi ætti að láta málefnið til sín taka. Dró hún ályktanir þar um með því að taka dæmi af aðferðum fjölmiðla og vísaði til framgöngu aðaláfrýjanda sem dæmis um hvernig fjölmiðlaumræða gæti haft áhrif á líf og lífshamingju fólks. Verður ekki annað talið en að tilvísun gagnáfrýjanda, sem sett var fram í spurnarformi, til orðasambandsins að hafa mörg mannslíf á samviskunni hafi verið notuð í yfirfærðri merkingu en ekki falið í sér fullyrðingu um að hann sjálfur hafi beinlínis orðið valdur að dauða fólks, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 405/2017.“

 

Dóm Hæstaréttar má lesa hér

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“
Fréttir
Í gær

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum
Fréttir
Í gær

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin
Fréttir
Í gær

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings
Fréttir
Í gær

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé