Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur hefur verið gagnrýninn á #metoo byltinguna og birt margar mjög umdeildar greinar um efnið. Hann var í viðtali á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði að aðferðir þeirra sem hafa sig mest frammi í baráttunni væru hættulegar, vegna þess að þessir hópar eða einstaklingar settu fram upplýsingar með þeim hætti að sá sem er ásakaður fái ekki að koma sínu á framfæri með nægilega góðum hætti og samfélagið dæmdi viðkomandi án þess að hans hlið hefði komið nægilega vel fram.
Helgi sagði að sú aðferðafræði sem hér væri að verki væri komin frá Bandaríkjunum. Markmiðið væri að breyta samfélaginu á, að hans mati, ólýðræðislegan hátt. Sagan sýndi að öfl sem fengju völd í samfélaginu upp úr grasrótinni gengju sífellt lengra og á endanum fengi samfélagið nóg af þeim og færi að snúast gegn þeim.
Eitt af þeim dæmum úr fréttum um slaufanir undanfarið sem tekið var fyrir í viðtalinu var mál Árna Péturs Jónssonar sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Skeljungs. Hann sendi frá þess fréttatilkynningu þess efnis þar sem kom fram að ástæða uppsagnarinnar væru samskipti við samstarfskonu fyrir 17 árum. Hann tók fram að hann væri ekki sakaður um neitt refsivert og konan sakaði hann ekki um kynferðislega áreitni en hún segðist hafa upplifað valdaójafnvægi í samskiptum þeirra. Yfirlýsing Árna Péturs var eftirfarandi:
„Nýverið barst mér tölvupóstur frá fyrrverandi samstarfsmanni mínum en við unnum saman fyrir u.þ.b. 17 árum og ég var þá yfirmaður hennar í öðru fyrirtæki. Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk. Hún hefur tjáð mér að ekki sé verið að saka mig um ofbeldi, áreiti, brot gegn lögum eða neitt þess háttar heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun.
Þrátt fyrir að ég hafi á engan hátt gerst brotlegur við lög þá átta ég mig á því að viðmið og viðhorf hafi breyst í samfélaginu og er það vel. Met ég stöðuna þannig að mál þetta kunni að valda fyrirtækinu og samstarfsfólki óþægindum. Ég hef því óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Skeljungi hf.“
Helgi er mjög gagnrýninn á þessa ákvörðun forstjórans og segir: „Hver var ásökunin? Mér finnst eðlilegt að þeirrar spurningar sé spurt. Hversu langt eigum við að fara aftur í tímann?“
Lýsti Helgi miklum efasemdum um að hægt væri að slaufa fólki fyrir eitthvað sem annars vegar væri ekki brot á lögum og hins vegar hefði gerst fyrir löngu síðan. Hann segir enn fremur: „Þetta er um samskipti tveggja einstaklinga fyrir mjög löngu síðan, það eru kannski mismunandi upplifanir, hann segir, það er betra fyrir fyrir fyrirtækið og fyrir mig að ég bara hætti núna og þá er bara hreint borð. Er það rökrétt að það sé eitthvað sem er óheppilegt í mannlegum samskiptum og svo löngu seinna leiði það til þess að þú segir upp starfi þínu? Hvar eru mörkin?“
Helgi segir að réttarríkið geri annars vegar ráð fyrir alvarlegum kynferðisbrotum, eins og nauðgun, og síðan vægari brotum, t.d. kynferðislegri áreitni, þar sem refsiramminn væri minni. Hvorugu væri til að dreifa í þessu tilviki: „Ef það er ekki verið að saka einhvern um refsiverða háttsemi hvers vegna á viðkomandi að vera slaufað?“