„Sólveig Anna og Viðar Þorsteinsson afhjúpaðu hundruð milljóna sjálföku í tengslum við fyrirtækið Init. Í kjölfar málsins réðu stjórnendur lífeyrissjóðanna Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og brottrekinn framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, til að passa að ekkert neikvætt kæmi út úr sýndar-rannsókn endurskoðunarfyrirtækis á málinu.“
Svona hefst færsla sem aðgerðarsinnahópurinn Jæja birti á Facebook-síðu sinni í dag. Þetta er ekki fyrsta færslan sem aðgerðarsinnahópurinn birtir á Facebook til að vekja athygli á formannsframboði Sólveigar Önnu Jónsdóttur í Eflingu. Ljóst er að hópurinn styður Sólveigu í framboðinu.
Helgi Seljan, blaðamaður Stundarinnar og fyrrum fréttamaður Kveiks, var alls ekki sáttur með þessa færslu hópsins. Hann birti í dag færslu á Twitter-síðu sinni þar sem hann segir það vera „einfaldlega haugalygi“ að Sólveig hafi afhjúpað eitthvað í málinu.
Færsluna sem Helgi birti má sjá hér fyrir neðan:
Þetta er einfaldlega haugalygi. Sólveig afhjúpaði ekki neitt í þessu INIT-máli. pic.twitter.com/ip1cxlEhcc
— Helgi Seljan (@helgiseljan) February 8, 2022
Maður nokkur spyr þá Helga í athugasemdunum hver hafi afhjúpað þetta ef það var ekki Sólveig. „Kveikur, eða öllu heldur sá sem kom gögnum um það til Kveiks,“ svarar Helgi þá. Kona nokkur segir þá að væntanlega hafi það verið Viðar Þorsteinsson sem kom gögnunum til Kveiks. „Uhh, nei,“ segir Helgi einfaldlega við því.
Eftir að Helgi birti færsluna þar sem hann sagði að um haugalygi væri að ræða ákvað aðgerðarsinnahópurinn að uppfæra færsluna. „Það var ekki ætluninn að draga úr þætti Kveiks við að afhjúpa Init málið. Þáttur Kveiks hefði auðvitað átt að fylgja með og biðjumst við velferðingar á að svo var ekki,“ segir í uppfærslu hópsins.
„Samkvæmt okkar heimildum var það Viðar Þorsteinsson (sem kemur margsinnis fyrir í þætti Kveiks) í umboði Sólveigar Önnu sem vakti fyrst athygli á málinu gagnvart Gildi lífeyrissjóði en það var svo Kveikur sem afhjúpaði málið opinberlega og á auðvitað allan heiður skilið fyrir.“