Áhrifavaldurinn Thelma Dögg Guðmundsen opnar sig um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hún var varð fyrir af hendi þjóðþekkts manns í nýjasta þætti Eigin kvenna í umsjón Eddu Falak.
Thelma greinir frá því að árið 2014 hafi hún verið að starfa hjá vefmiðli þegar maður sem hafi verið eigandi miðilsins hafi orðið ágengur í samskiptum við hana og meðal annars hótað henni að hann gæti gert út um feril hennar í fjölmiðlum ef hún yrði ekki að óskum hans.
„Þegar ég byrjaði þarna þá er staðan þannig að hann segir mér bara einfaldlega að ég sé ótrúlega heppin að vera í þessari stöðu. Því þá var ég ekki búin með vissa menntum sem hentaði þannig að hann væri að gefa mér rosalega mikinn séns og hann væri að passa líka upp á mig. Hann væri að sjá til þess að ég væri þarna áfram,“ segir Thelma.
Hún segir að maðurinn hafi sent henni tölvupóst utan vinnutíma, oft seint á kvöldin til að „athuga hvernig mér þætti vinnan og allt þetta.“
Hún hafi reynt að afsaka þessa framkomu með því að honum væri annt um starfsfólk sitt en í dag þætti henni þetta stórfurðuleg framkoma yfirmanns í garð undirmanns.
Hann hafi kallað hana á fundi á vinnustaðnum þar sem hann hafi látið að því liggja að hennar næstu yfirmenn væru óánægðir með störf hennar, en hún þyrfti þó ekki að hafa áhyggjur þar sem hann gætti hennar. Eins hafi hann spurt hana óviðeigandi spurninga um persónu hagi hennar.
„Ég þurfi að fara í aðgerð einhvern tímann og hann var þá að spyrja hvort ég væri með kynsjúkdóma og hvað þetta væri og af hverju ég væri að fara í aðgerð,“ segir Thelma. En henni hafi þótt þetta óviðeigandi.
Síðan hafi verið matarboð fyrir vinnustaðinn. Þar hafi maðurinn gengið fram af henni og samstarfskonu.
„Eftir að hann er búinn að telja mér trú um það að ég þyrfti að sofa hjá honum til að halda vinnunni minni þá hélt hann bara áfram og hótaði því að ég þyrfti að sofa hjá honum ef ég vildi einhvern tímann vinna aftur hjá fjölmiðli – ef ég vildi vinna í sjónvarpi- og hann myndi sjá til þess að það yrði ekkert úr mér ef ég myndi ekki verða að hans óskum.“
Þessar samræður hafi átt sér stað yfir um 45 mínútna tímabil, en maðurinn hafi króað hana af og hún átt erfitt með að koma sér undan.
„En þarna var ég einhvern veginn að reyna að koma upp orði og hann bað mig að hætta bara þessu kjaftæði og taka prikið úr rassgatinu á mér og allskonar bara áframhaldandi. Bara ótrúlega óviðeigandi og niðurbrjótandi og bara kynferðisleg áreitni sem átti sér stað þarna.“
Hún hafi tekið orð hans nokkuð trúanleg þar sem maðurinn á þessum tíma virtist mjög vel tengdur. Var bæði eigandi af vefmiðli og með sjónvarpsþátt.
„Hann var með þátt á Stöð 2 á þessum tíma, og hann var búinn að svona ýja að því að ég mætti nú fara að komast þar inn og það væri gaman ef ég myndi ná að vera þar, þetta var svona pólitískur þáttur. Þannig í rauninni var hann þarna að hræða mig algjörlega frá a–ö.”
Maðurinn hafi einnig sagt við hana að hann væri valdamikill, sérstaklega að hann hafði völd yfir konum og gæti fengið hvaða konu sem hann vildi.
„Og að hann þyrfti ekki að vera á Tinder eða einhverju appi því hann myndi ekki hafa undan og þyrfti að fá einhvern til að sjá um það fyrir sig.“
Svo strauk hann á henni lærið og þá reyndi hún að komast frá honum. Á sama tíma hafi hann líka áreitt samstarfskonu hennar og farið með hendina undir pilsið hjá henni og sagt álíka hluti og hann hafði sagt við Thelmu.
„Ég fer þarna inn á bað og hún með mér. Og við bara báðar í mjög miklu sjokki og erum að pæla hvað við ættum eiginlega að gera – þetta er gæinn sem borgar launin okkar og ræður því hvort við höldum okkar starfi eða ekki sko.“
Thelma hafi líka upplifað að aðrir í matarboðinu sem gætu talist vitni væru meðvirkir með manninum þar sem þau áttu einnig störf sín og afkomu undir honum komið.
Daginn eftir hafi Thelma haft samband við samstarfskonu sína varðandi næstu skref. Þó að sú hafi rætt það í matarboðinu að þær ættu að fara með málið lengra, hafði hún þarna skipt um skoðun því hún vildi ekki missa vinnuna. Thelma segist alveg skilja það, en sjálf ákvað hún að segja starfi sínu lausu og var þá í erfiðri stöðu þar sem hún var verktaki og átti engan rétt á greiðslu í uppsagnarfrest.
Fyrst hafði hún þó leitað til síns næsta yfirmanns en komst þá að því að umræddur maður hafi tilkynnt þeim að hann ætti engar minningar frá matarboðinu sökum áfengisóminnis. Telur Thelma það ólíklegt þar sem maðurinn hringdi ítrekað í hana áður en hann ræddi við yfirmann hennar.
Eins hafi hún leitað til Blaðamannafélagsins en félagið hafi ekki brugðist við.
Maðurinn hafi svo sent Thelmu skilaboð, sem má sjá hér að neðan, þar sem hann sagði hana ekkert eiga upp á sig að klaga.
Thelma hefur áður opnað sig um þetta mál opinberlega. Hún segir að umræddur maður hafi svarað fyrir málið í kjölfarið og beðist afsökunar.
„Minn gerandi sem áreitti mig – yfirmaður minn – hann kemur með einhverja blaðagrein þar sem hann er að biðjast afsökunar. Það eitt og sér þykir mér mög lélegt,” segir Thelma. En umræddur maður hafi ekki haft samband við hana eða aðra þolendur sína áður en afsökunarbeiðnin var birt.
„Hver er tilgangurinn með því að setja fram þessa afsökunarbeiðni er það vegna þess að þig langar að biðjast afsökunar eða er það út af því að það eru bara allir sem vita þetta núna og þú þarft að gera eitthvað í málunum til að bjarga eigin rassi?“
Hún segir að viðbrögð yfirmanna hennar á vefmiðlinum hafi einnig valdið sér vonbrigðum en þeir hafi reynt að afsaka manninn.
„Hann var á einhverju LKL mataræði og hann var búinn að fá sér í glas. En við erum að tala um það að ég var farin heim fyrir 21 þetta kvöld […]En það kom líka alveg frá mínum yfirmanni: Æj þú veist að hann var þarna á mataræðinu og var ekki búinn að borða mikið“
Hún hafi þá spurt yfirmann sinn: „Myndir þú bjóða dóttur þinn upp á þetta. Myndir þú mæla með því að hún myndi halda áfram að vinna þarna? Og þetta var vinur hans og hann gat ekki svarað því játandi og ég sagði að það segði allt sem segja þarf.”
Brot úr þættinum má sjá hér fyrir neðan. Fullan þátt geta áskrifendur hlaðvarpsins nálgast í gegnum Patreon síðu Eigin Kvenna.