Fjölskylda á Kársnesinu í Kópavogi varð fyrir því áfalli í gærkvöld, að eftir að fólkið hafði brugðið sér frá til að sækja mat á veitingastað í hverfinu var brotist inn á heimilið, rótað í innbúi og eigum og miklum verðmætum stolið.
„Við löbbuðum út héðan um kl. 7 í gærkvöld og vorum í svona 40 mínútur,“ segir kona sem ekki vill láta nafn síns getið enda málið viðkvæmt.
Þegar fólkið komi til baka frá veitingastaðnum sáu þau að gluggi hafði verið spenntur upp og farið inn um hann. „Það var búið að henda út skúffum og róta í skápum, fara inn í herbergið og það var dót í hrúgu á gólfum,“ segir konan en aðkoman var ömurleg fyrir fólkið.
„Við erum öll í áfalli. Við eigum lítinn strák sem er mjög hræddur,“ segir konan en mikil verðmæti voru tekin í innbrotinu.
„Við erum fimm í heimili og eigum öll okkar tæki og dýr föt. Auk þess voru teknir skartgripir, peningar, veski og skilríki.“ Telur hún tjónið hlaupa á hundruðum þúsunda, jafnvel yfir milljón.
Rannsóknarlögregla kom á vettvang og skoðaði ummerki. Að sögn konunnar er rannsókn á frumstigi. „Það er eflaust erfitt að upplýsa þetta, engar myndavélar hér,“ segir viðmælandi okkar en hún telur að fylgst hafi verið með heimilinu og fjölskyldunni, enda hafi allir bílar verið heima er þau brugðu sér frá og samt var brotist inn.
Stuttlega var greint frá málinu í dagbók lögreglu í morgun. Þar segir að brotist hafi verið inn í heimahús í hverfi 200 og málið sé í rannsókn.
↨