Veðurstofan hefur uppfært viðvaranir fyrir landið allt upp í appelsínugult fyrir aðfaranótt mánudags og hvetur landsmenn til að huga vel að öllum lausamunum og verktaka til að ganga vel frá vinnusvæðum.
Á vef Veðurstofunnar segir að miklar líkur séu á foktjóni og ófærð.
Lægðin sem gengur yfir landið aðfaranótt mánudags er sögð „sérlega djúp og áköf“ og líkur á að áhrif veðursins verði umtalsverð.
Nú er því um að gera að tjóðra niður trampólín, grill og jafnvel garðhúsgögnin svo þau endi ekki á bílnum hjá nágrannanum með tilheyrandi veseni.
Þeir sem eiga eftir að losa sig við jólatré ættu líklega að nýta daginn í að koma þeim á réttan stað, eins þeir sem geyma poka með flöskum á svölunum eða í garðinum.