Landsréttur staðfesti nú síðdegis í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því haustið 2020 í máli Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar gegn ÍR, en þar var íþróttafélaginu gert að greiða körfuboltamanninum tvær milljónir auk 800 þúsunda í málskostnað vegna málsins fyrir héraðsdómi. Er ÍR til viðbótar við þá fjárhæð með dómi Landsréttar í dag gert að greiða Sigurði 600 þúsund krónur í málskostnað vegna reksturs málsins fyrir Landsrétti. ÍR áfrýjaði málinu.
Forsaga málsins, líkt og DV greindi frá í nóvember 2020 þegar dómur héraðsdóms féll, er sú að Sigurður var fenginn til liðs við Körfuknattleikslið ÍR í október 2019. Í sínum fyrsta leik slasaðist Sigurður og hófu fyrirsvarsmenn ÍR þá að reyna að breyta samningnum við Sigurð. Þegar það tókst ekki hætti ÍR að greiða honum laun.
Tekist var á um það fyrir dómi hvort áhætta vegna meiðsla ætti að hvíla á liðinu eða á íþróttafólki sem spilar fyrir liðið. Úr því hefur nú verið skorið með skýrum hætti, en í dómnum segir:
Meiðsl þátttakenda í íþróttakappleikjum eru nokkuð tíð þótt misalvarleg séu. Má ætla að fyrirsvarsmönnum áfrýjanda, sem er íþróttafélag sem hefur greitt leikmönnum fyrir að spila kappleiki og æfa á þess vegum, sé kunnugt um þessa áhættu.
Segir jafnframt að jafnvel þó ekki hafi verið vikið að tilfellum sem þessum með skýrum hætti í samningi Sigurðar og ÍR, kemur þar fram að leikmaður sé skuldbundinn til að taka þátt í æfingum og leikjum félagsins nema „lögmæt forföll hamli.“ Þá er leikmaður skuldbundinn til að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að ná sér af veikindum eða meiðslum sem hann verður fyrir á samningstímanum.
Segir þá í dómi Landsréttar:
Ákvæði samningsins sem vísað er til verða ekki skilin á annan veg en að forföll stefnda frá æfingum og keppni vegna meiðsla þeirra sem h
ann hlaut í kappleik fyrir áfrýjanda hafi verið lögmæt. Þá leiðir einnig af samningnum að skyldur stefnda, sem óumdeilt er að var ófær um þátttöku í kappleikjum og æfingum, felast í að gera sitt besta til að ná sér með réttri endurhæfingu í samráði við fagfólk.
Var því litið þannig á að forföll Sigurðar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í sínum fyrsta leik heyrðu undir „lögmæt forföll,“ eins og það er orðað í samningi hans og íþróttaliðsins og að ÍR ætti því með réttu að greiða honum þau laun sem samningurinn kvað á um.
Í samtali við RUV í ágúst 2020 sagði Guðni Fannar Carrico formaður körfuknattleiksdeildar að um „leiðindamál væri að ræða,“ en hann teldi ÍR vera að gera rétt. „Þetta verður síðan bara að koma í ljós,“ sagði hann jafnframt.
Nú er hið rétta þá komið í ljós. Skúli Sveinsson lögmaður Sigurðar sagði dóm héraðsdóms vera sigur fyrir réttindi íþróttafólks. Skúli segir sigurinn nú fyrir Landsrétti sérstaklega mikilvægan í ljósi þeirra bragða sem ÍR hafi að undanförnu beitt skjólstæðing sinn. Segir hann ÍR meðal annars hafa meinað Sigurði Gunnari að mæta á viðburði „á meðan málið er í þeim farvegi sem það [var í].“
„Maður á ekki að þurfa að fara leynt með hlutina eftir að hafa sætt órétti,“ bætir Skúli við í samtali við DV.