Guðrún Dís Emilsdóttir hefur að nýju hafið störf hjá RÚV. Hún starfaði síðast fyrir Ríkisútvarpið árið 2019.
Guðrún Dís er landsmönnum að góðu kunn sem stjórnandi eins vinsælasta útvarpsþáttar landsins, Virkra morgna á Rás 2, ásamt Andra Frey Viðarssyni og kynnir í Útsvarinu, spurningakeppni sveitafélaganna á RÚV.
Guðrún Dís verður í ýmsum verkefnum fyrir útvarp og sjónvarp. Þau Andri Freyr sameinast á ný í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 sem þau stjórna ásamt Hrafnhildi Halldórsdóttur.
Þá á Guðrúnu Dís eftir að bregða reglulega fyrir á skjánum og hennar fyrsta verkefni verður að vera spyrill í sérstakri útgáfu Gettu betur, léttum og skemmtilegum spurningaþætti sem hefur göngu sína í byrjun apríl og verður á dagskrá á föstudagskvöldum.
„Það leggst mjög vel í mig að byrja aftur á RÚV og ég er full tilhlökkunar að takast á við þau verkefni sem framundan eru.“ segir Guðrún Dís í tilkynningu frá RÚV.