Efling hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna vinnustaðaúttektar sem kynnt var starfsmönnum á fundi núna í morgun, en þar mátti finna harðar ásakanir í garð fyrrverandi formanns félagsins, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, og fyrrverandi framkvæmdastjóra, Viðars Þorsteinssonar.
„Í nóvember 2021 leitaði stjórn Eflingar til sálfræði- og ráðgjafarstofunnar Lífs og sálar, með ósk um aðkomu að vinnustaðagreiningu, með það fyrir augum að bæta starfsumhverfið,“ segir í tilkynningu.
Gerð var almenn athugun á innra starfsumhverfi skrifstofu Eflingar, líðan, starfanda, streitu, álag og stjórnun. Viðtöl voru tekin við 48 starfsmenn og stuðst við spurningar um sálfélagslega áhættuþætti.
„Fjórir sálfræðingar tóku að sér að vinna verkefnið fyrir hönd Lífs og sálar. Í niðurstöðum kom fram að það væri mat þeirra að starfsfólk á skrifstofum Eflingar brenni fyrir störfum sínum og upplifi að það sé að gera gagn og taka þátt í mikilvægu starfi. Metnaður og væntumþykja gagnvart vinnustaðnum sé ráðandi. Stutt sé þó í kvíða, óöryggi og særðar tilfinningar eftir atburði síðasta árs.“
Það kom einnig fram að framganga Sólveigar og Viðars í garð starfsmanna hafi orðið til þess að erfitt var fyrir hópinn, stjórnendur og starfsmenn að mynda samstöðu.
„Í kynntum niðurstöðum kom einnig fram það mat að framganga fyrrum formanns og framkvæmdastjóra Eflingar gagnvart starfsmannahópnum og svo einangrun þeirra á sinni vegferð, virðist hafa orðið til þess að þau náðu ekki hópnum með sér og átök og togstreita jókst uns upp úr sauð. Þá var tortryggni á báða bóga í byrjun sem virðist ekki hafa verið unnið í að eyða af hálfu stjórnenda. Gerði þetta hvorutveggja hópnum og stjórnendum erfitt um vik að finna takt og samstöðu.
Að mati greiningaraðila virðast óundirbúnar breytingar, léleg miðlun upplýsinga, neikvæð framkoma gagnvart undirmönnum og tíðar og óvæntar uppsagnir hafa skapað óöryggi og vantraust í hópnum. Virðist hafa skort mjög að hafa starfshópinn með í ráðum um hvernig hann gæti stutt við og eflt formann og stjórn og aðstoðað við að ná markmiðum stjórnenda í sínu starfi.“
Þeir sem gerðu úttektina telja það áhyggjuefni hversu mikið starfsmenn minntust á kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu Viðars, og svo virðist sem að sú framkoma hafi þrifsti í skjóli Sólveigar, þáverandi formanns.
„Samkvæmt greinendum er töluvert áhyggjuefni hve starfsmönnum var tíðrætt um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti af hálfu framkvæmdarstjóra, að því er virðist í skjóli formanns. Að þeirra mati telst þetta sérstaklega alvarlegt þar sem um er að ræða æðstu stjórnendur á vinnustað og því mikið valdaójafnvægi milli einstaklinga. Þó ekki sé hægt að fullyrða að einelti hafi liðist á skrifstofum Eflingar, þar sem þessi greining var ekki eineltisúttekt, fullyrða greiningaraðilar að auðsjáanlega er jarðvegur fyrir slíkt í hópnum. Viðmælendur lýsa vanlíðan sem er dæmigerð í þannig vinnuaðstæðum. Þá virðist hafa verið brugðist illa og óljóst við þeim kvörtunum um neikvæða og niðurlægjandi háttsemi sem upp komu á síðustu misserum.“
Greiningaraðilar Lífs og sálar telja að framganga Sólveigar og Viðars gegn starfsmönnum hafi haft alvarleg áhrif á líðan þeirra og muni taka tíma að græða þau sár.
„Það er mat greiningaraðila Lífs og sálar að sú útreið sem starfsmannahópurinn fékk í haust hafi haft alvarleg áhrif á líðan fólksins og muni taka töluverðan tíma að græða þau sár. Mjög mikilvægt er að starfsfólk geti byggt upp öryggi og traust gagnvart stjórnendum og samstarfsfólki.
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri Eflingar, segir það ákveðinn létti fyrir skrifstofuna að vinnustaðaúttekin sé komin fram. Skrifstofa Eflingar búi yfir dýrmætum mannauði sem starfar af miklum heilindum og því mikilvægt að nýta öll verkfæri til að stuðla að bættu vinnuumhverfi. Fram hafi komið í greiningunni að starfsfólk sé almennt ánægt með framþróun og umbætur að undanförnu og því sé mikilvægt að horfa fram á veginn. Það sé brýnt að læra af erfiðri reynslu síðasta árs og ára og þróa uppbyggilegar leiðir til að leysa ágreining. Þar sé mikil vinna framundan og mikilvægt að hún sé leidd með faglegum og skýrum hætti“