Lögmaðurinn Steinbergur Finnbogason, sem var verjandi Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar sem nýlega var sakfelldur fyrir fimm kynferðisbrot, sakar lögmanninn Sigrúnu Jóhannsdóttur um lygar. Sigrún birti á dögunum færslu á Facebook þar sem hún fagnaði niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, sem sakfelldi Jóhannes fyrir fimmta brotið, og rakti samhliða framgöngu Steinbergs í sinn garð, en Sigrún var réttargæslumaður kvenna í málinu þar til Steinbergur fór fram á að hún yrði vitni og sakaði hana um að hafa „smalað“ saman þolendum og leiðbeint þeim um hvað þeim bæri að segja.
Sjá einnig: Meint fórnarlömb „Stjörnunuddarans“ svipt lögmanni sínum í Landsrétti
Sigrún sagði þessar ásakanir Steinbergs út í hött og að nú hafi héraðsdómur í tvígang sem og Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu, að fullyrðingar Steinbergs um annarlega aðkomu að málinu, ættu ekki við rök að styðjast.
Sjá einnig: „Að einn morguninn hafi ég vaknað og ákveðið að nú skyldi ég koma saklausum manni í fangelsi“
Steinbergur hefur nú svarað skrifum Sigrúnar og skýtur fast til baka. Hann skrifar svargrein sem birtist hjá Fréttablaðinu með fyrirsögninni: „Ljótt skrök“
„Það er ljótt að skrökva. Fyrir dómstólum þykir það reyndar ekki tiltökumál að sakborningar í nauðvörn hagræði sannleikanum, noti jafnvel lygina sem síðasta hálmstráið og verji sig að öðru leyti einnig með kjafti og klóm. Þá reynir sem fyrr á fagmennsku bæði lögmanna og dómara. Til þeirra eru gerðar miklar kröfur, bæði að lögum og siðareglum, og flestum eru þær skyldur heilagar. Þar geta ósannindi aldrei orðið tilgangur sem helgar meðalið. Og þar má heldur aldrei blanda lögmanni og skjólstæðingi hans saman í eitt lið. Allir gera einfaldlega sitt besta til þess að sakborningur fái sem besta vörn, réttlátustu málsmeðferð og sanngjarnan dóm.“
Steinbergur segir fæsta lögmenn fara út fyrir þennan ramma, en það hafi Sigrún þó leyft sér á dögunum. Steinbergur segir að í færslu Sigrúnar megi finna lygar og þar sé hún að samsama hann skjólstæðingi hans, Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni.
Steinbergur segir það ekki rétt að dómstólar hafi nú ítrekað hafnað meiningum Steinbergs um að Sigrún hafi fengið konur til að kæra Jóhannes og svo haft áhrif á framburð þeirra. Þvert á móti sé sú ásökun studd málsgögnum og vitnisburðum.
„Hið rétta er einfalt. Fyrirliggjandi málsgögn og vitnisburðir staðfesta aðkomu Sigrúnar að smölun á skjólstæðingum, meðal annars uppástungu hennar um auglýsingu eftir brotaþolum undir fölsku nafni og móttöku hennar á mögulegum kærendum. Dómstigin tvö töldu þetta hins vegar ekki skipta máli hvað varðaði sekt eða sýknu umbjóðanda míns. Á því annars vegar og hinu hins vegar, að þau hafi „vísað á bug“ þessum ásökunum mínum er mikill munur.“
Steinbergur segist hafa leitað til Lögmannafélags Íslands vegna færslu Sigrúnar og óskað eftir því að hún verði áminnt.
„Framganga Sigrúnar á opinberum vettvangi, rangtúlkanir hennar og svig framhjá sannleika málsins, er þess eðlis að ég hef farið þess á leit við Lögmannafélag Íslands að hún verði minnt á þær lögmannsskyldur sem flestir í stéttinni hafa alla daga í hávegum. Í Morgunblaðinu í gær er vitnað í tæplega tuttugu ára gömul varnaðarorð þáverandi forsætisráðherra í áramótaávarpi og ég vil leyfa mér að taka undir þau heilshugar: „Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum virðist sama. Menn yppa öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast um skamma hríð, en verður að þjóðarböli, þegar til lengdar lætur.““