Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg, hefur ákveðið að stíga til hliðar í starfi sínu vegna ásakana um heimilisofbeldi. Þetta tilkynnir Ragnar í stuttri yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni nú í morgun. Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill og barnsmóðir Ragnars, stígur fram í nýjasta tölublaði Vikunnar og greinir frá andlegu og líkamlegu ofbeldi sem hún fullyrðir að hún hafi mátt sæta á meðan sambandi þeirra stóð. DV greindi frá því í gær að lögmaður Ragnars, Gunnar Ingi Jóhannsson, hefði hótað Vikunni lögsókn ef að viðtalið myndi birtast.
Ragnar bregst ekki við ásökunum Haddar í yfirlýsingu sinni en segir að deilur þeirra megi rekja til forræðisdeilu sem standi yfir.
„Mér þykir ákaflega sárt að lesa lýsingar barnsmóður minnar í viðtali við Vikuna en ég tel ekki rétt að úttala mig um mína hlið í fjölmiðlum. Deilur okkar, sem varða forræði, eru í sínu rétta ferli. Ég mun stíga til hliðar úr starfi mínu sem framkvæmdastjóri hjá Brandenburg. Ég tel mér ekki fært að sinna því starfi fyllilega á sama tíma og ég tekst á við þetta mál með hagsmuni dóttur okkar að leiðarljósi,“ skrifar Ragnar í yfirlýsingu sinni.