Diego er sérstakt umfjöllunarefni Facebook-hóps sem telur tæplega 7.000 meðlimi sem birta myndir af honum við „störf“ í verslunum Skeifunnar, til að mynda er hann fastagestur í Hagkaup og A4.
Í ritfangabúðinni er meira að segja auglýsing sem segir Diego mæla með ákveðnum pappír en iðullega gerir köttuirnn sér ferð í búðina til að leggja sig á pappírnum.
Nú hefur Diego þó vakið athygli utan landsteinanna. Twitter-aðgangurinn Bodega Cats, sem er með rúmlega 870 þúsund fylgjendur, birti í gær myndir af Diego sem teknar voru í A4 í Skeifunni.
Diego vakti að sjálfsögðu mikla ánægju hjá fylgjendum Bodega Cats en tæplega 30 þúsund manns hafa líkað við myndirnar af íslenska kettinum.
— Bodega Cats (@Bodegacats_) February 2, 2022
Í athugasemdunum má sjá mikla aðdáun hjá fylgjendum Bodega Cats á þessum íslenska ketti. „Vá hvað hann er myndarlegur,“ segir til dæmis í einni athugasemdinni. „Starfsmaður mánaðarins,“ segir í annarri athugasemd. Þá segir einn fylgjandinn að Diego myndist afar vel.
Þá birti Bodega Cats einnig mynd af auglýsingaskiltinu sem Diego er á í A4. Fjölmargir fylgjendur aðgangsins vildu ólmir vita hvað textinn á skiltinu þýddi á ensku og mættu nokkrir Íslendingar í athugasemdirnar til að þýða textann. „Diego mælir með New Future pappírnum. Athugið, ef þú ert með kattaofnæmi þá eigum við pakka á bakvið,“ stendur á skiltinu sem sjá má á myndinni hér fyrir neðan.
— Bodega Cats (@Bodegacats_) February 2, 2022