Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill gerir athugasemd við yfirlýsingu Ragnars Gunnarssonar, barnsföður síns, sem hefur ákveðið að stíga til hliðar frá starfi sínu sem framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg.
Hödd steig fram í viðtali í Vikunni og sakaði Ragnar um heimilisofbeldi. Lögmaður Ragnars hótaði Vikunni málsókn vegna viðtalsins.
Ragnar segir í yfirlýsingu sinni að deilur hans og Haddar um forræði yfir dóttur þeirra séu í farvegi. Hann telji ekki rétt að úttala sig um sína hlið í fjölmiðlum. „Ég tel mér ekki fært að sinna því starfi fyllilega á sama tíma og ég tekst á við þetta mál með hagsmuni dóttur okkar að leiðarljósi,“ segir Ragnar. DV greindi frá yfirlýsingu Ragnars í frétt fyrr í dag:
Sjá einnig: Ragnar stígur til hliðar hjá Brandenburg í kjölfar ásakana um heimilisofbeldi
Í tilefni yfirlýsingar Ragnars vill Hödd Vilhjálmsdóttir koma því á framfæri að engin forræðisdeila sé í gangi á milli hennar og Ragnars.
„Ég hef fengið staðfest hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að ekkert forræðisdeilumál tengt okkur er í gangi hjá embættinu. Ragnar talar um deilur og forræði en ekkert slíkt er í gangi,“ segir Hödd.