Niðurstöður mótefnamælinga Íslenskrar erfðagreiningar gefa til kynna að 80% Íslendinga verði komnir með gott mótefni gegn Covid-19 síðari hluta marsmánaðar.
Þetta kemur fram í nýjum pistli sóttvarnalæknis á covid.is. Vísbendingar eru um að um síðustu áramót hafi 20% Íslendinga greinst með Covid-19. Bendir það til þess að fjöldi smitaðra sé helmingi fleiri en þeirra sem greinst hafa með PCR-prófum.
Pistillinn er eftirfarandi:
„Nú liggja fyrir fyrstu niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á útbreiðslu COVID-19 Íslandi í samvinnu við sóttvarnalækni.
Mótefni voru mæld hjá 1892 einstaklingum víðs vegar af landinu sem voru á aldrinum 20-90 ára. Helstu niðurstöður voru þær, að um 20% einstaklinga yngri en 50 ára mældust með mótefni gegn SARS-CoV-2 veirunni en voru heldur sjaldgæfari eldri einstaklingum.
Vísbendingar eru því um að um síðustu áramót hafi um 20% Íslendinga sýkst af COVID-19 frá upphafi faraldursins. Ef þetta hlutfall er borið saman við það hlutfall sem greinst hefur með PCR prófi á sama tímabili þá má ætla að rúmlega helmingi fleiri hafi raunverulega sýkst en greinst hafa. Með sömu útreikningum og að því gefnu að um 1.500 manns smitist á hverjum degi þá má ætla að um 80% landsmanni hafi öðlast gott ónæmi gegn COVID-19 síðari hluta mars mánaðar.
Á næstu dögum verða niðurstöður sendar í Heilsuveru þeirra sem tóku þátt í rannsókninni og verður það auglýst sérstaklega þegar það verður gert. Mikilvægt er að hafa í huga að mótefni í blóði segja ekki óyggjandi til um hversu vel varðir einstaklingar eru fyrir endursmiti af völdum COVID-19. Endursmit eru hins vegar fátíð og í dag hafa um 1.300 manns sýkst aftur af COVID-19 af um 70.000 staðfestum smitum (1,9%).
Fyrirhugað er einnig að mæla mótefni gegn S-próteini veirunnar og á þann hátt er hægt að greina þá sem myndað hafa mótefni eftir bólusetningu. Ekki er ljóst hvenær þessum mælingum mun ljúka en það verður auglýst betur þegar að því kemur.“