Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára.
Runólfur er læknir með sérfræðiréttindi í lyflækningum og nýrnalækningum. „Runólfur hefur afburðarþekkingu á öllum þáttum faglegrar starfsemi spítalans en hefur einnig yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu hér á landi í víðu samhengi, samspili stofnana og mismunandi þjónustustiga. Hann hefur verið leiðandi og farsæll í klínískum störfum og sem stjórnandi. Runólfur hefur unnið að innleiðingu margvíslegra umbóta og nýjunga og framtíðarsýn hans fyrir Landspítala er skýr,“ segir í tilkynningu um málið.