Flugfélagið PLAY hefur flug til New York þann 9. júní næstkomandi og er miðasala nú þegar hafin í þessar ferðir. Hyggst PLAY fljúga daglega til New York en þetta er þriðji áfangastaður flugfélagsins í Bandaríkjunum á eftir Boston og Washington.
Mun PLAY lenda á New York Stewart International flugvellinum. Staðsetning þessa flugvallar hefur vakið töluverðar umræður á samfélagsmiðlum og netverjar sem eru kunnugir New York vilja meina að þessi flugvöllur sé svo langt frá New York og samgöngur svo slæmar á leiðinni að í raun sé hér um ónothæfa þjónustu að ræða.
Hringbraut tók þessa umfjöllun saman
Í umfjöllun Hringbrautar segir:
„Netverjar sem hafa vanið komur sínar til New York borgar eða búið þar um tíma segja þetta hins vegar draumsýn hjá Play. Einar Karl Friðriksson, sem bjó meðal annars í efri hluta New York sem námsmaður í Ithaca háskóla segir þetta vera um 100 kílómetra leið á bíl og almenningssamgöngur séu slæmar.“
Annar netverji heldur því fram að ferðalagið frá flugvellinum inn á aðallestrastöðina í New York taki tvær klukkustundir. Enn annar skrifar:
„Flugvöllur sem er 1:30 tíma frá borginni í engri umferð. Þetta verður sem sagt ónothæf þjónusta.“