fbpx
Föstudagur 07.febrúar 2025
Fréttir

Allt að sjóða upp úr á Alþingi – „Ég hélt að þetta væru falsfréttir. Ég trúði þessu ekki“

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 1. febrúar 2022 16:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmenn úr Viðreisn, Pírötum, Flokki fólksins og Samfylkingunni kvöddu sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag til að ræða þá þá stöðu sem upp er komin nú þegar Útlendingastofnun hefur trassað að afhenda Alþingi umsóknir sem borist hafa um veitingu íslensks ríkisborgararéttar, samkvæmt fyrirmælum frá innanríkisráðuneytinu.

Þar voru viðraðar hugmyndir á borð við að lýsa yfir vantrausti á innanríkisráðherra og að auglýsa eftir þeim umsóknum sem skilað var til Útlendingastofnunar en hafa ekki skilað sér til þingsins, talað um valdarán Útlendingastofnunar og einn þingmaður sagðist hafa talið um falsfréttir að ræða þegar hann heyrði fyrst af málinu.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist nú vera komin í þriðja sinn í pontu að ræða þetta sama mál, að stjórnvöld neiti að fara að lögum og afhenda þinginu þessi gögn. Hún rifjaði upp að hún hefði óskað eftir því að forseti þingsins myndi skerast í leikinn til að tryggja virðingu þingsins, hann hafi ætlað að gera það en ekkert orðið um efndir enn sem komið er.

Hún benti einnig á að allsherjar- og menntamálanefnd hafi verið einhuga um að biðja innanríkisráðherra, Jón Gunnarsson, um að koma á sinn fund til að ræða þetta mál og fá skýringar en hann hafi ekki séð sér fært að koma fyrr en eftir tæpar tvær vikur. Á meðan þeir sem eru að bíða eftir afgreiðslu á umsókn sinni um ríkisborgararétt svari stjórnvöld hins vegar engu öðru en að þessi gögn muni berast „þegar þeim hentar.“

Lögbrot með stuðningi ráðherra

Útlendingar geta lögum samkvæmt fengið ríkisborgararétt á tvo vegu. Önnur er sú að sækja um til Útlendingastofnunar sem metur hvort skilyrði eru uppfyllt og getur þá veitt ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun.

Hin leiðin er með lögum frá Alþingi en lögum samkvæmt tekur Útlendingastofnun við þeim umsóknum og afhendir þinginu. Venju samkvæmt hefur þetta verið gert tvisvar á ári, fyrir jólafrí þingsins og fyrir sumarfrí. Þetta var þó ekki hægt fyrir síðustu jól þar sem Útlendingastofnun hafði ekki afhent þinginu umsóknirnar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði stöðuna mjög alvarlega. „Ein af undirstofnunum ríkisins er að brjóta lög með því að varna því að Alþingi geti uppfyllt sínar lögbundnu skyldur,“ sagði hún og sagði að svo virtist sem Útlendingastofnun hefði til þessa stuðning síns eigin ráðherra, Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra.

Þá benti hún á það úrræðaleysi sem er til staðar og að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem lýst hefur yfir áhyggjum af stöðunni, virðist ekki hafa önnur úrræði en að koma upp í pontu og lýsa yfir vanþóknun sinni.

Algjörlega orðlaus

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagðist ekki hafa trúað því þegar hann heyrði fyrst af því að verið væri að neita þinginu um þessi gögn sem það á lögmætan rétt á að fá. „Ég hélt að þetta væru falsfréttir. Ég trúði þessu ekki,“ sagði hann og bætti við: „Hvað er það sem ríkisstjórnin er að fela þarna? Það hlýtur að vera eitthvað grafalvarlegt.“

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, vakti athygli á því að það er ekki bara stjórnarandstaðan sem er að krefjast svara í málinu á hverjum þingfundinum á fætur öðrum, heldur hafi það einnig gert forsætisráðherra, fjármálaráðherra, forseti Alþingis og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. „Þarna er ráðuneyti og stofnun, eða ráðherra og stofnun, að taka sér vald sem það hefur ekki,“ sagði Sigmar.

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins sem ennfremur er fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, sagðist algjörlega orðlaus yfir þessu. „Þetta er spurning um virðingu þingsins og ekkert annað,“ sagði hann.

Vantraust mögulega eina leiðin

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði: „Undanfarnar vikur höfum við orðið vitni að valdaráni stofnunar sem fær boð frá ráðherra um að sniðganga Alþingi.“ Með þessu væri Alþingi meinað að gera það sem lögin segja að þingið eigi að gera.

Þá sagðist Helga Vala hafa skorað á allsherjar- og menntamálanefnd að auglýsa eftir umsóknunum um ríkisborgararétt, og hvetja þá sem skiluðum sínum umsóknum til Útlendingastofnunar að skila þeim beint til Alþingis.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði að málið væri farið að snúast um miklu meira en umsóknir um ríkisborgararétt, að þetta væri farið að snúast um lögbrot ráðherra og Útlendingastofnunar, og að það geti skapað hættulegt fordæmi að leyfa þessu að viðgangast. Þá viðraði hann þá hugmynd sína að mögulega væri ekkert annað í stöðunni en að lýsa yfir vantrausti á ráðherra.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði að það væri ekki sannleikanum samkvæmt, sem innanríkisráðherra hefur gert, að kalla þessa leið í gegn um þingið til að fá ríkisborgararétt einhverja VIP-leið. Þvert á móti sé þetta þrautarvaraleið fyrir fólk sem uppfyllir ekki ströng skilyrði laganna til að fá ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun frá Útlendingastofnun „en á engu að síður heimtingu á ríkisborgararétti.“ Þá sagði hann: „Þetta er ekki VIP-meðferð. Þetta er meðferð í þágu mannúðar.“

Hér má lesa grein sem Jón Gunnarsson birti á Vísir.is þann 26. janúar um málið og ber hún heitið Ríkisborgararéttur og Alþingi.

Hér má síðan lesa grein eftir framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency International, Atla Þór Fanndal, þar sem hann svarar Jóni daginn eftir og kallast sú grein Jón Gunnarsson og landsdómur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Niðursveifla í rússnesku efnahagslífi – Mörg hundruð bílasölur leggja upp laupana

Niðursveifla í rússnesku efnahagslífi – Mörg hundruð bílasölur leggja upp laupana
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin
Fréttir
Í gær

Eldingu sló niður í Hallgrímskirkjuturn – „Þetta var mögnuð tilviljun“

Eldingu sló niður í Hallgrímskirkjuturn – „Þetta var mögnuð tilviljun“
Fréttir
Í gær

Sex manna hvolpasveit handtekin á Spáni

Sex manna hvolpasveit handtekin á Spáni
Fréttir
Í gær

Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna veðurs

Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi vegna veðurs
Fréttir
Í gær

Miðbæjarbúar skiptast í fylkingar eftir viðtal Íslands í dag við Ólaf og Esther – „Komin út fyrir allan þjófabálk“

Miðbæjarbúar skiptast í fylkingar eftir viðtal Íslands í dag við Ólaf og Esther – „Komin út fyrir allan þjófabálk“