Samráðshópur tónlistariðnaðarins skorar á stjórnvöld að aflétta eins metra reglu á tónlistarviðburðum. Reglan geri það ómögulegt að skipuleggja stóra viðburði þar sem stór hluti sæta sé óseljanlegur. Nú sé tónlistarfólk að reyna að skipuleggja viðburði í mars, en óvíst sé hvort það verði hægt, verði eins metra reglan enn við lýði.
Í áskoruninni segir hópurinn það hafa valdið vonbrigðum að eins metra fjarlægðarmörk óskyldra á viðburðum hafi ekki verið felld niður með afléttingum á miðnætti 29. janúar.
„Einnig vakti það furðu að ekki væri gert ráð fyrir niðurfellingu á þessari reglu í næsta skrefi sem tekið verður þann 24. febrúar n.k.. Staðreynd málsins er sú að á meðan eins metra reglan er í gildi, kemst íslenskt tónleikahald ekki af stað, burtséð frá öðrum reglum og stærð hólfa.
Hólfaskiptingin ein og sér dregur úr sætaframboði en með eins metra reglunni er tónleikahald í raun fyrirfram dauðadæmt. Í 500 manna sal er aðeins hægt að taka á móti 300-350 gestum, í 1.000 manna sal aðeins um 6-700 gestum og í 1.500 manna sal aðeins um 900-1000 gestum.“
Ekki sé fjárhagslega gerlegt að undirbúa og framkvæma tónleika þegar svo stór hluti sæta sé óseljanlegur.
„Janúar og febrúar eru dauðir og farnir og nú miðar allur tónlistariðnaðurinn við að komast af stað í mars. Marsmánuður er þéttbókaður í öllum sölum landsins fyrir tónleika sem búið er að fresta í tvö ár og flestir salir landsins eru þéttbókaðir út árið – og raunar vel fram á næsta ár fyrir alla hina tónleikana sem búið er að fresta í gegnum allan faraldurinn.“
Afleitt væri ef tónleikageirinn þurfi að fella niður þessa viðburði í mars og. jafnvel væri mögulegt að fella þyrfti þá niður fyrir fullt og allt þar sem mánuðirnir á eftir séu þéttbókaðir.
„Á næstu 10 – 14 dögum þurfa tónleikahaldarar að taka ákvörðun um hvort þeir sjái sér fært að halda tónlistarviðburði í mars, því enginn hefur efni á að setja vinnuna af stað og stofna til kostnaðar og skuldbindinga sem tapast svo að miklu eða öllu leyti ef fresta þarf enn einu sinni.“
Nú sé verið að taka stór skref í afléttingu takmarkanna og sé það illskiljanlegt að tónleikar séu þar undanskildir. Á viðburðum sé setið í númeruðum sætum með hólfaskiptingu, allir snúa í sömu átt, bera grímu og hafa skráð kennitölur sínar. Ekki sé heldur selt áfengi á viðburðum.
„Jafnframt er enn óheimilt að selja áfenga drykki á skipulögðum viðburðum á sama tíma og krár mega vera með opið til miðnættis. Ljóst er samkvæmt þessu að jafnvel þótt eðlilegt sé að eins metra reglan gildi áfram þar sem ótengdir koma saman, er staðan allt önnur og betri á skipulögðum tónleikum.
Að lokum er rétt að benda á að í gegnum allan faraldurinn hafa tónleikahaldarar og tónlistarmenn þó sýnt mikla ábyrgð og ávallt fylgt ítrustu tilmælum yfirvalda og munu gera áfram. Í ljósi alls þessa skorar SAMRÁÐSHÓPUR TÓNLISTARINNAR á stjórnvöld að falla frá eins metra reglunni þegar í stað á skipulögðum viðburðum.“