Rúm 74% aðspurðra í nýrri könnun Maskínu eru mjög eða fremur hlynnt því að bólusetja 5-11 ára börn við COVID-19. Rúm 11% sögðust hins vegar mjög eða fremur andvíg þessum bólusetningum.
Lítill munur var á kynjunum. Tæp 75% karla sögðust mjög eða fremur hlynntir bólusetningunum en tæp 74% kvenna.
Þegar svör eru skoðuð eftir aldurshópum eru flestir í hópi 60 ára og eldri sem segjast mjög hlynntir, eða 61%. Flestir í hópi þeirra sem sögðust mjög andvígir eru á aldrinum 30-39 ára, eða 10,6%.
Þegar svörin eru skoðuð eftir búsetu voru flestir þeirra sem sögðust mjög hlynntir búsettir á höfuðborgarsvæðinu, eða 54%.
Þá var tekjuhæsti hópurinn, fólk með tekjur 1,2 milljón eða hærri mánaðarlaun, stærstur þeirra sem sagðist mjög hlynntur bólusetningunum, eða 63,1%.
Frá Maskínu:
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e.panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundum.
Könnunin fór fram dagana 6.-17. 2022 og voru svarendur 902 talsins.