Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hefur tilkynnt að hún gefur kost á sér sem næsti formaður SÁÁ. Fjörutíu félagar í aðalstjórn hafa þegar skorað opinberlega á hana að bjóða sig fram en alls eru fjörutíu og átta í aðalstjórninni. Aðalfundur verður boðaður fljótlega vegna afsagnar Einars Hermannssonar úr embættinu og þar verður nýr formaður kjörinn.
Þóra Kristín tilkynnir um framboðið í færslu á Facebook þar sem hún segist bjóða sig fram í trausti þess að hún fái stuðning „til að hrinda í í framkvæmd tímabærum breytingum á starfseminni sem ekki er hægt að skorast undan lengur í ljósi síðustu atburða.“
Hún bendir á að SÁÁ sé samansafn ólíkra einstaklinga með mjög fjölbreyttan farangur mannlegra breyskleika. Samtökin vilja taka utan um alla, hjálpa öllum. Það má aldrei breytast.
„Þegar það koma upp erfið mál innan samtakanna eða á sjúkrastofnunum þeirra verðum við alltaf að taka stöðu með þolendum ofbeldis. Þetta getur verið flókið en það þýðir ekki að það megi gefa afslátt af öryggi fólks eða mannlegri reisn.
Þetta er flókið viðfangsefni vegna þess að við erum öll saman í þessu, karlar, konur og ungmenni, bæði gerendur og þolendur ofbeldisbrota. Eitruð karlmennska og harka er fylgifiskur harðrar neyslu og þótt fólk komi úr allskonar aðstæðum höfum við flest verið föst inni í vítahring og útsett fyrir margskonar ofbeldi og sárindum. Konur hafa oft veikari félagslega stöðu og minni líkamsburði til að verja sig,“ segir Þóra Kristín í framboðsyfirlýsingunni sem má lesa hér í heild sinni.