„Þetta er mjög viðkvæmt mál því það verður rætt þarna um látinn einstakling. Þetta var bara fyrst og fremst mjög sorglegt atvik og örugglega eitt erfiðasta mál sem ég hef unnið við um ævina,“ segir Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Rúmenans Dumitru Calin, sem sakaður er um að hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana fyrir utan heimili þess síðarnefnda, í Vindakór í Kópavogi í byrjun apríl árið 2021.
Aðalmeðferð í málinu verður á miðvikudag í Héraðsdómi Reykjaness.
Dumitru er ákærður fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að hafa látist farast fyrir að koma manni til bjargar. Í ákæru segir:
…„fyrir manndráp af gáleysi og að hafa látið farast fyrir að koma manni til bjargar, en til vara fyrir hættubrot og að hafa látið farast fyrir að koma manni til bjargar, með því að hafa að morgni föstudagsins 2. apríl 2021, framan við A í Kópavogi, ekið bifreiðinni B með 15-20 km/hraða á klukkustund sem leið lá út af bifreiðaplaninu, þrátt fyrir að X, kennitala x, héldi báðum höndum um hliðarrúðu ökumanns, sem var dregin niður að hluta, og hann dróst þannig eða hljóp með bifreiðinni í að lágmarki 13,90 m uns hann féll í jörðina og í kjölfarið ók ákærði af vettvangi án þess að huga að X en með háttsemi sinni stofnaði ákærði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu X í augljósan háska. Afleiðingar alls þessa eru þær að X lést á sjúkrahúsi þann 3. apríl 2021 vegna höfuðáverka sem hann hlaut við fallið daginn áður.“
DV spurði lögmanninn á hvaða forsendum Dumitro neitar sök. „Hann neitar sök en samþykkir alveg atburðarásina og allt það, þ.e. að hann hafi verið á staðnum. En hann telur að þetta sé ekki saknæmt,“ segir Unnsteinn sem er sammála skjólstæðingi sínum um að atburðurinn hafi verið slys.
„Hann telur sig ekki hafa gert annað en aðrir hefðu gert í hans stöðu. Það liggur fyrir matsgerð í málinu þar sem segir að hann hafi hvorki keyrt á óhæfilegum hraða né óhæfilega langa vegalengd. Hann keyrði ekki á manninn heldur hékk maðurinn utan í bílnum. Þetta er í rauninni bara mjög sorglegt atvik, óþarfa hending,“ segir Unnsteinn.
En varðandi þann hluta ákærunnar að hafa ekki komið manni til hjálpar þá segir Unnsteinn hreint út: „Ástæðan fyrir því að hann kom honum ekki til hjálpar er sú að hann var alveg skítlogandi hræddur við hann. Það að ætla honum að stoppa og huga að manni sem hann kveður að hafi ráðist að sér er full harkalegt. Það voru líka engin ummerki um eitt né neitt á vettvangi.“
Unnsteinn segir að Dumitru muni bera vitni í málinu en einnig unnusta hans. Hann segist ekki vita hvers vegna hún sé kölluð fyrir sem vitni enda hafi hún ekki verið á vettvangi. Að sögn Unnsteins væri hún annars löngu farin úr landi.
Dumitru Calin er ungur að árum, fæddur árið 1997. Að sögn Unnsteins á hann engu að síður börn í heimalandinu, Rúmeníu. Daníel var liðlega þrítur að aldri er hann er hann dó eftir samskipti sín við Dumitru.
Dumitru er með fjölmargar aðrar ákærur á bakinu, flestar vegna umferðarlagabrota, en eina vegna þjófnaðar og eina vegna líkamsárásar. Þessar ákærur verða einnig teknar fyrir í þessu þinghaldi, sem mun standa yfir frá kl. 10:30 til 16 á miðvikudag. Allar líkur eru á því að fimmtudagurinn fari einnig í þessi réttarhöld.