„Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) er aldargamall málsvari dýra í landinu, stofnað 1914. Félagið lyfti grettistaki í dýravelferðarmálum hér á landi og á sér merka sögu. Það er slæmt að sjá stöðu Dýraverndarsambandsins nú, en undanfarin ár hefur félagið verið óvirkt og ekki starfað í samkvæmt lögum þess.“
Svona hefst pistill sem hestafræðingurinn Linda Karen Gunnarsdóttir og læknirinn Rósa Líf Darradóttir skrifa en pistillinn birtist á Vísi í dag. Þær Linda og Rósa segja í pistlinum að DÍS sé að bregðast hlutverki sínu með því að taka ekki afstöðu með frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem snýst um að banna blóðmerahald.
„Í stað þess að taka umsvifalaust afstöðu með frumvarpinu og gegn þessari starfsemi, fordæmir stjórn DÍS í umsögn sinni að blóðtaka á fylfullum hryssum verði framkvæmd án þess að óháð rannsókn á velferð hryssa og folalda þeirra liggi fyrir. Í umsögninni segir einnig að ótækt sé að miða við rannsóknir á öðrum dýrum en hryssunum sjálfum. Við slíkar rannsóknir yrði fjöldi hryssa gerður að tilraunadýrum í þágu þessarar starfsemi með tilheyrandi kvölum. Þetta er stórfurðuleg afstaða hjá stjórn DÍS.“
Linda og Rósa furða sig þá á því að félagið taki ekki strax afstöðu með dýrunum. „Að dýravelferðarsamtök taki ekki afdráttarlausa afstöðu með dýrum heldur óski eftir rannsóknum er óskiljanlegt. Það er hlutverk eftirlitsaðila og leyfisveitenda. Það er hins vegar skylda dýravelferðarsamtaka að gæta hagsmuna dýra og tala máli þeirra,“ segja þær.
Linda og Rósa gagnrýna þá harðlega að stjórn félagsins hafi ekki haldið aðalfund síðan árið 2018. „Samkvæmt lögum félagsins að halda árlega og hefur sitjandi stjórn því ekki endurnýjað umboð félaga. Í færslu á heimasíðu félagsins dagsetta 13.01.2022 kemur fram að ástæður þessa séu flutningar í nýtt húsnæði árið 2019 og faraldurinn síðastliðin tvö ár,“ segir í pistli þeirra en þær eru ekki ánægðar með þessar útskýringar.
„Þetta eru lélegar afsakanir og sýna um leið viðhorf stjórnar til félaga í DÍS. Aðalfundi hefði verið hægt að halda með rafrænum hætti. Félagar hafa sömuleiðis ekki fengið upplýsingar frá stjórn DÍS síðan vorið 2018 og fyrirspurnum með tölvupósti er varla eða ekki svarað. Aðalfundargerð og ársskýrsla hefur ekki verið birt síðan 2016 og fundargerðir stjórnar ekki síðan 2017. Þetta er óásættanlegt.“
Næst eru fjármál félagsins gagnrýnd. „Í færslu á vefsíðu félagsins dagsetta 13.01.2022 kemur fram að félagið sé búið að vera að greiða fyrir þrif, framkvæmdir á húsnæði, vinnu við bókhald og fleira þess háttar. Kemur fram að stjórnarmenn, að ósk stjórnarmanna og í þeirra umboði, séu í einhverjum tilfellum að taka að sér slík launuð störf,“ segja þær.
„Stjórnin hefur ekki innheimt félagsgjöld síðan 2018 og er verið að ganga á sjóði Dýraverndarsambandsins til að standa undir rekstri félagsins. Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hefur DÍS ekki skilað skattframtali síðan 2018, fyrir árið 2017. Fjármál félagsins eru því í ólestri.“
Að lokum segja þær að allt sem þær töldu upp í pistlinum sé „áfellisdómur yfir núverandi stjórn Dýraverndarsambandsins“. Þær segja að það sé ljóst að stjórnarmenn sambandsins séu að bregðast félaginu sjálfu og félögum þess. „Stjórnarmenn eiga að sjá sóma sinn í að segja sig frá stjórnarsetu í Dýraverndarsambandinu hið fyrsta,“ segja þær.
„Undirritaðar krefjast þess að stjórn félagsins haldi aðalfund sem allra fyrst og kosin verði ný stjórn sem starfar í samræmi við lög Dýraverndarsambandsins.“