Sendiherrar Bandaríkjanna og Rússlands hafa í dag tekist á fyrir opnum tjöldum á vettvangi Öryggisráðsins. Hafa fulltrúar Bandaríkjanna meðal annars ásakað Rússa að tefla friðinum í Austur Evrópu í voða með hernaðaruppbyggingu sinni á landamærum sínum við Úkraínu.
Fulltrúar Rússa hófu strax vörn sína í upphafi fundar og mótmæltu meðal annars að fundurinn væri yfir höfuð haldinn. Kölluðu þeir jafnframt ásakanir Bandaríkjanna „ástæðulausar,“ þar sem engir rússneskir hermenn væru í Úkraínu. Spurði bandaríski sendiherrann viðstadda þá að ímynda sér að þeir væru með 100 þúsund hermenn frá nágrannaríki sínu sitjandi á landamærunum.“
Í nýliðinni viku var meðal annars sagt frá því í heimspressunni að Rússar hefðu komið sér upp stórum birgðum af blóði til þess að nota í slasaða hermenn sem þyrftu á blóðgjöf að halda. Jók það enn á áhyggjur vesturlanda, sem þó voru miklar fyrir, að innrás væri yfirvofandi.
Hægt er að horfa á fund Öryggisráðsins hér að neðan í beinni útsendingu Reuters fréttaveitunnar.