Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands, fann sig knúna til að skrifa svar við pistli sem hestafræðingurinn Linda Karen Gunnarsdóttir og læknirinn Rósa Líf Darradóttir skrifuðu um sambandið og birtu á Vísi í dag.
Þær Linda og Rósa sögðu í pistli sínum að DÍS væri að bregðast hlutverki sínu með því að taka ekki afstöðu með frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem snýst um að banna blóðmerahald. Þá sögðu þær fjármál sambandsins vera í ólestri og að það væri „óásættanlegt“ að sambandið væri ekki búið að halda aðalfund síðan árið 2018.
Lesa meira: Linda og Rósa segja afstöðu DÍS stórfurðulega – „Þetta er óásættanlegt“
Hallgerður segir í svari sínu við þessum pistli, sem hún birtir einnig á Vísi, að um dylgjur sé að ræða. „Við hörmum að sjá fólk kjósa að verja kröftum í að birta dylgjur um vafasaman ásetning, bága fjárhagsstöðu eða veika starfsemi, til þess eins að skaða orðspor félags sem vinnur að velferð dýra,“ segir hún í pistlinum.
Þá kennir Hallgerður kórónuveirunni um að ekki sé búið að halda aðalfund síðan árið 2018 og hún segir félagið standa vel fjárhagslega. „Enda er stjórnin ábyrg og varkár með fjármuni þess,“ segir hún.
Varðandi skort á afstöðu þeirra til frumvarpsins um að banna blóðmerahald segir Hallgerður að það sé stefna stjórnar DÍS að „vanda til gagnaöflunar“ áður en afstaða er tekin. „Samkvæmt lögum félagsins eigum við þar samskipti við alla mögulega aðila þar á meðal stjórsýslu- og hagsmunaaðila,“ segir hún.
„Myndbönd af illri meðferð á stóðhryssum á Íslandi hefur verið áberandi mál undanfarið og við höfum aflað gagna um það víða og á sama tíma þrýst á hagsmunaaðila og stofnanir og sent kröfu um úrbætur til stjórnvalda. Við stöndum einhuga með velferð hryssanna.
Því miður hefur borið nokkuð á misvísandi upplýsingum um hag og aðbúnað þeirra. Ekki finnast heldur rannsóknir á blóðtöku eins og hún er framkvæmd út frá velferð og samhengi hryssanna sjálfra. Við höfum kallað eftir hið minnsta að strax verði rannsökuð velferðartengd áhrif þess fyrirkomulags sem hefur verið um áratugi hér á landi og teljum hryssunum betur í hag að fá að lifa heldur en að vera slátrað að órannsökuðu máli.“
Að lokum segir Hallgerður að það sé rangt að DÍS hafi ekki skilað skattframtali síðan árið 2018 en Linda og Rósa fullyrtu það í pistli sínum. „Ber þetta vott um nokkra vanþekkingu. Frjáls félagasamtök um líknarmál skila ekki skattskýrslu til RSK, en ber að skila launaframtali þegar þau eru með starfsfólk á launum,“ segir Hallgerður.
„Eins og greinarhöfundar benda réttilega á (en kalla skattframtal) var slíku launaframtali skilað síðast fyrir árið 2018 þegar félagið var einmitt síðast með fastan launamannn. Félagið hefur skilað verktakamiðum eins og lög gera ráð fyrir þegar ráðið er til einstaka verkefna. Félagið fer eftir landslögum og skattalögum í öllum rekstri sínum.“