Talsvert hefur verið um að vera hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sé mið tekið af dagbókarfærslum hennar. Flest tengjast málin ölvun og fíkniefnaneyslu en nokkrar líkamsárásir komu til kasta lögreglu í nótt. Þannig voru tveir menn vistaðir í fangageymslu lögreglu eftir að slegist innbyrðis í miðbænum og farið síðan að veitast að öðrum vegfarendum.
Skömmu síðar var tilkynnt um mann í miðbænum sem hrinti stúlku þannig að hún hrasaði aftur fyrir sig og lenti á bakinu og mann sem var kýldur í andlitið. Árásaraðili farinn frá vettvangi. Afskipti höfð af árásaraðila skömmu síðar og var frásögn hans á annan veg. Hann var með áverka og mögulega úr axlarlið. Hann var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild. Málið er í rannsókn.
Þá var tilkynnt um umferðarslys kl.17.23 í gær við verslanir í Garðabæ en bifreið hafði verið ekið á gangandi konu. Ökumaðurinn kvaðst eftir slysið ætla að setja bifreiðina í stæði og athuga með skemmdir en ók þá á brott og yfirgaf vettvang. Konan fann til eymsla í mjöðm og var flutt með sjúkrabifreið á Bráðadeild til aðhlynningar. Lögregla hefur upplýsingar um bifreiðina og er málið í rannsókn.
Þá handtók lögreglan þrjá aðila í Grafarholti um hálf fjögur í nótt sem grunaðir eru um innbrot og þjófnaði í bifreiðum. Aðilarnir voru teknir höndum og vistaðir í fangageynslu lögreglu á meðan rannsókn stendur yfir.