Landsþing Ungra jafnaðarmanna (UJ) samþykkti í dag ályktun um aukið samstarf stjórnmálaflokka frá miðju og til vinstri. Í ályktuninni segir að slík samvinna sé lykillinn að bættum kjörum almennings á Íslandi og róttækum aðgerðum í loftslagsmálum. Landsþing felur framkvæmdastjórn UJ að kanna hljómgrunn fyrir auknu samstarfi meðal ungliðahreyfinga annarra flokka frá miðju og til vinstri.
Ályktunin var samþykkt mótatkvæðalaust. Í umræðum var sú skoðun áberandi að samstaða sé lykillinn að árangri jafnaðar- og umbótaflokka í stjórnmálum en krefjist átaks og málamiðlana. Þá var rifjaður upp aðdragandinn að sameiningu jafnaðarmanna um síðustu aldamót og veigamikill þáttur ungliða í stofnun Samfylkingarinnar.
Félagshyggjuverðlaun UJ voru veitt á landsþinginu en það var Margréti S. Frímannsdóttur sem fékk þau fyrir óeigingjarnt framlag sitt í þágu jafnaðarstefnunnar og samvinnu jafnaðarmanna á Íslandi.
Margrét var sveitarstjórnarfulltrúi og oddviti Stokkseyrarhrepps og Alþingismaður árin 1987-2007. Hún var síðasti formaður Alþýðubandalagsins og fyrsti leiðtogi Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ávarpaði landsþingið en hún sagði meðal annars að staða jafnaðarmanna væri sterk á sveitarstjórnarstiginu. Hún sagði þá að það þurfi að endurheimta traust fólksins í landsinu á Samfylkingunni til að veita forystu á sviði landsmálanna.
Til þess þurfi fulltrúar jafnaðarmanna að finna auðmýkt hjá sjálfum sér, horfa inn á við og hlusta á almenning. Hvatti hún Unga jafnaðarmenn til að fara út á meðal fólks og ætlaði hún ekki að láta sitt eftir liggja heldur ferðast um landið á næstum vikum og byrja í Norðvesturkjördæmi.
Ragna Sigurðardóttir situr áfram sem forseti UJ þar sem hún var kjörin til tveggja ára á landsþingi haustið 2020 en þrír nýir fulltrúar voru kjörnir í framkvæmdastjórn, einn fulltrúi framhaldsskólanema og tólf fulltrúar í miðstjórn.
Framkvæmdastjórn UJ á næsta starfsári er svo skipuð: Ragna Sigurðardóttir forseti, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Alexandra Ýr van Erven, Arnór Heiðar Benónýsson, Gunnar Örn Stephensen, Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, Ólafur Kjaran Árnason og Jóhannes Óli Sveinsson, fulltrúi framhaldsskólanema.