Mæðgunum Örnu Rúnarsdóttur og Rúnu Helgadóttur hefur verið vísað úr Hundaræktunarfélagi Íslands í 15 ár. Þær Arna og Rúna hafa ræktað Schäferhunda í mörg ár undir ræktunarnafninu Gjóska.
Þetta kemur fram í úrskurði frá siðanefnd Hundaræktunarfélagsins en siðanefndin fundaði vegna málsins þann 25. janúar síðastliðinn. Í úrskurðinum er farið yfir brot Örnu og Rúnu.
Fyrst er sagt frá því að þær hafi vísvitandi skráð ranga ræktunartík á eitt, tvö eða þrjú pörunarvottorð við umsókn um ættbókarskráningu gota sem hafði þær afleiðingar að útgefna ættbækur gotanna voru efnislega rangar. „Kærandi telur að með þessari háttsemi hafi kærðu brotið gróflega gegn markmiðum félagsins og því ræktunarstarfi sem það stendur fyrir,“ segir í úrskurðinum.
Þá brutu þær gegn skyldum sínum sem ræktendur félagsins með því að æta ekki með hunda úr ræktun sinni í lífsýnatöku til sönnunar á ætterni en félagið hafði krafist þess að það yrði gert. Þær neituðu einnig að gefa upplýsingar og svöruðu fyrirspurnum framkvæmdastjóra félagsins með útúrsnúningum í tölvupóisti.
Þær eru einnig sakaðar um fölsun og kosningasvindl með því að tilkynna eigendaskipti á tíkinni sinni rúmu ári eftir að hún var aflífuð í þeim tilgangi að veita sambýlismanni Rúnu kjörgengi og atkvæðisrétt á aðalfundi Schäferdeildar félagsins. „Kærðu hafi þannig veitt félaginu vísvitandi rangar upplýsingar um hund og eiganda í ættbók með það að markmiði að hafa áhrif á lýðræðislegt kjör stjórnar ræktunardeildar félagsins,“ segir í úrskurðinum.
Í úrskurðinum kemur svo fram að þær hafi sakað framkvæmdastjóra félagsins um refsiverða háttsemi og varpað rýrð á störf hans í þágu félagsins. Þá kemur einnig fram að þær hafi ætlað sér að para undaneldishundinum sínum við ónefnda tík sem ekki var ættbókarfærð hjá félaginu.
Brot Örnu og Rúnu eru ýmist sögð stórfelld, ámælisverð og verulega ámælisverð. Í lok úrskurðarins kemur fram að þær fái báðar áminningu auk þess sem þeim er vikið úr félaginu í 15 ár.
Þá eru þær útilokaðar frá allri þáttöku í félaginu í 15 ár ásamt því að þær eru sviptar ræktunarnafninu Gjósku.
Þær eru einnig útilokaðar frá rétti til að fá afhent ættbókarskírteini frá félaginu í 15 ár.
Arna og Rúna kröfðust þess að kærandi skyldi borga málskostnaðinn en þeirri kröfu var vísað frá siðanefndinni.