DV fékk ábendingu í morgun þess efnis að níu manns hefði verið sagt upp hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Flestallir starfsmennirnir sem fengu uppsagnarbréf voru í veikindaleyfi og voru uppsagnarbréf keyrð heim til þeirra.
Uppsagnirnar eru sagðar á grundvelli hagræðingar en viðmælandi DV dró í efa að fækka ætti fólki hjá embættinu á næstunni. Búast mætti við að stöður yrðu auglýstar á næstunni.
DV bar málið undir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríði Kristínsdóttur, og staðfesti hún tíðindin:
„Það er rétt að níu starfsmönnum var sagt upp í gær og að meirihluti þeirra hafði verið í veikindaleyfi. Uppsagnir eru alltaf erfiðar en þess var gætt í framkvæmdinni að fylgja lögum og reglum sem um þær gilda,“ segir Sigríður.
Varðandi efasemdir um að uppsagnirnar séu hagræðingaraðgerðir, segir Sigríður:
„Það er ekki algengt að hagræðing feli í sér fækkun verkefna heldur er verið að stefna að því vinna hlutina á hagkvæmari hátt og í takti við þarfirnar og það fjárhagslega svigrúm sem við höfum.“