Líkt og fram kom í fréttum á dögunum þá þurfti Hamborgarafabrikkan að loka stöðum sínum á Höfðatorgi og í Kringlunni vegna sóttkvíar og einangrun starfsmanna.
Staðirnir, sem voru lokaðir í alls fimm daga, opnuðu aftur um leið og starfshópurinn losnaði úr prísundinni og segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna, að starfsfólk hafi mætt endurnært til starfa.
„Ef við lítum á kómísku hliðarnar þá sýnist mér Fabrikkan vera fyrsti veitingastaðurinn sem nær hinu eftirsótta hjarðónæmi, allavega samkvæmt þeim viðmiðum sem eru í umræðunmni,“ segir Jóhannes.
Þetta er í fyrsta skipti sem Hamborgarafabrikkunni hefur verið lokað frá því að hún opnaði dyrnar árið 2010. „Þetta er bara hluti af þessari baráttu við blessuðu veiruna, sem er vonandi á lokametrunum. Starfsfólk Fabrikkunnar er allavega endurnært og orkumikið og hlakkar til komandi mánaða,“ bætir Jóhannes við að lokum.