Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti þann 11. janúar að skólasund yrði valfag á unglingastigi, eða með öðrum orðum að nemendur geti lokið skólasundi í 9. bekk ef þau ná að standa hæfnisviðmið.
Þessi ákvörðun hefur vakið þó nokkra athygli og eru skoðanir afar skiptar.
Diljá Ámundadóttir Zöega, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, skrifaði grein um málið sem birtist hjá Fréttablaðinu þann 13. janúar þar sem ákvörðuninni var fagnað með vísan til þess að ekki kæri öll ungmenni sig um það að þurfa að afklæðast með jafnöldrum í sundklefum.
„Við lifum á tímum þar sem heilbrigð líkamsvitund á undir högg að sækja og viðmið útlitskrafna eru sköpuð í heimi filtera og læka á samfélagsmiðlum. Á sama tíma er sístækkandi hópur barna og ungmenna sem er trans, þar með talin kynsegin og skilgreinir sig út fyrir hina hefðbundnu kynjatvíhyggju.“
Diljá segir að það geti verið kvíðavaldur hjá ungmennum að þurfa að vera klæðlítil í sundi með jafnöldrum sínum.
„Mörg hafa upplifað kvíða í aðdraganda sundtíma með mikla vanlíðan og jafnvel skömm eftir tímana. Sum einfaldlega sleppa því að mæta í skólasund með tilheyrandi fjarvistum í kladdann. Það að samþykkja þessa tillögu gæti því stuðlað að streituminnkandi hversdagsleika hjá þeim sem þurfa mest á því að halda.“
Hópur íþróttafræðinga og sundkennara skrifaði svargrein sem birtist hjá Vísi í gær. Þar var þess minnst að sund er hreyfing og að á unglingastigi samkvæmt aðalnámskrá sé áhersla í sundi lögð á björgun. Ákvörðun borgarinnar hafi ekki verið tekin í samráði við þá kennara sem kenni sund.
„Kæra Diljá, Örn og aðrir í öðrum skólanefndum. Við Íþróttafræðingar og sundkennarar erum alveg til í að samþykkja að kannski mætti gera sund að valgrein í 10. bekk. Það væri þá undir kennurum og skólastjórnendum komið. Það gæti vissulega verið hvetjandi að mæta í alla tíma í 9. bekk og ná þá að klára hæfniviðmið í 10. bekk í leiðinni. En það val í 10. bekk þarf þá að vera með hreyfingu á móti eins og stendur í aðalnámskrá. Það er nefnilega þannig að ef nemendur hafa fengið góða kennslu á yngri stigum skilar það sér í eldri deildir sem áhugaverðir tímar sem gefa heilmikið í þoli og tækni. Lausnin er síst að hætta að hreyfa sig.“
Hafþór B. Guðmundsson, fyrrum sundmaður, sundkennari og sundþjálfari, tekur undir þetta í grein sem hann birti einnig hjá Vísi. Þar segist hann vona að Reykjavíkurborg endurskoði þessa ákvörðun enda sé hún ekki í samræmi við aðalnámskrá mennta- og menningarmálaráðuneytis og varla á færi borgarinnar að breyta henni.
„Ef Aðalnámskrá fyrir efsta stig er skoðuð er ljóst að þetta stig er mjög mikilvægt í grunnskólakennslunni, Á þessum aldri hafa unglingarnir verið að þyngjast hvað mest og fallið út úr ýmiskonar hreyfingu. Á þessu stigi fer einnig fram mest af þeirri kennslu í skyndihjálp og björgunarmálum sem kennd eru í grunnskóla. Þessi þáttur í Aðalnámskrá er talinn ófrávíkjanlegur þáttur í grunnskóla íþróttakennslunnar.“
Íslendingar hafi einstaka aðstöðu til sundiðkunar og sundlaugar hafi í gegnum árin verið félagsmiðstöð unglinga þar sem þeir hittist og spjalli sem og stundi hreyfingu.
Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, bendir í grein sem hún hefur ritað á að ákvörðunin hafi byggst á því að nemendur upplifi að þau hafi náð góðum tökum á sundfærni á unglingsaldri og vilji heldur nýta tímann í annað. Eins varði málið geðheilsu nemenda, en kvíði og einelti geti „grasserað“ við þær aðstæður sem sundiðkun kalli á.
„Tillagan varpar þá ljósi á hver áhrifin eru á líðan ungmenna þegar þau eru í skiptiklefunum og sturtunum. Þar geti þeim liðið illa eða þótt óþægilegt að vera innan um skólafélaga sína sökum t.d. slæmrar líkamsmyndar, vegna skilgreiningar á kynvitund eða kynhegðun, eða athugasemda vegna fjarveru ef nemandi er á blæðingum, o.s.frv.“
Fræðsla um líkamsvirðingu, líkamsímynd, kynvitund, kynhegðun og fleira þurfi að koma frá fagmanneskju og eigi sú vinna frekar heima í lífsleikni en í sturtuklefum.
Furðar Rannveig sig einnig á því að grunnskólanemar eigi samkvæmt aðalnámskrá að kunna flugsund. Mögulega sé kominn tími til að endursoða hvert markmið íþrótta í grunnskólum sé.
„Ég rak mig á það sjálf nýverið hvað ég er í rauninni bitur útí mína íþrótta- og sundkennslu sem barn. Ég var krakkinn sem hafði lítið þol eða úthald (var reyndar góð í brennó og alltaf valin fyrst í liðin, þrátt fyrir að vera svo léleg að skjóta að ég hefði ekki getað bjargað lífi mínu við það, en að hitta mig var nánast ómögulegt), píptest var dauði og djöfull, ég hef aldrei skilið boltaíþróttir, ég fatta ekki hlaup eða skokk og ég var alltaf mjög óörugg í vatni og óttaðist að ég myndi drukkna.“
Þetta þýði þó ekki að Rannveig hati hreyfingu og íþróttir enda er hún í dag jógakennari og stundi sund sem heilsurækt.
„Ég hef skilning á því að viðhorfin og viðmiðin hafi verið ólík þegar ég var í grunnskóla, en af hverju eru þau enn til staðar árið 2022? Af hverju hefur þessi kennsla breyst svona lítið? Í bóklegum greinum tökum við próf í einrúmi en í íþróttum sjá allir hvenær þú dettur út úr píptestinu.“
Umræðan hefur líka farið fram á samfélagsmiðlum. Þar virðist sérstaklega flugsundið trufla, og hafa þó nokkrir bent á að flugsund sé líklega ekki eiginleiki sem flestir noti á lífsleiðinni. En einnig hefur fólk rifjað upp þeirra tíma í skólasundi á unglingastigi og þá vanlíðan sem því fylgdi.
Í ljósi umræðunnar finnst mér rétt að láta vita að ég var það góð í flugsundi í grunnskóla að ég var látin vera sýnikennsla fyrir bekkinn minn.
Kannski líka rétt að taka fram að ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, getað nýtt þennan hæfileika minn í neitt. Flugsund er drasl.
— Þórunn Jakobs 🇵🇸 (@torunnjakobs) January 26, 2022
Þetta er svo fokking heimskt, afhverju þurfa krakkar að standast hæfnispróf í sundi til að sleppa við sundkennslu þegar þau eru í 10. bekk? Leyfið krökkum bara að velja hvaða grein þau vilja fara í þótt þau standist ekki eitthvað helvítis sundþolpróf. pic.twitter.com/ospfcqyfdD
— Bulky (@Johannesoli1) January 23, 2022
skólasund var my villian origin story
— Ylfa (@ylfaswag) January 11, 2022
Vá ég hata ennþá flugsund. Náði aldrei að læra það. Var að sjá manneskju synda það í tv núna og fékk ömurlegt flashback þegar það dró mig alltaf niður í einkunn að kunna það ekki.
— 𝚁 𝙰 𝙶 𝙶 𝙰 🦋 (@raggaj89) November 29, 2021
Hvað gerist svo ef nemendur ná ekki hæfnimarkmiðunum í grunnskóla? Ekkert. Ekki baun. Þau eru nefnilega ekki sett á fyrsta þrep í sundi í framhaldsskóla ef þau fara þangað. Nah, það er ekkert sund í aðalnámskrá framhaldsskóla. Ekki neitt. Who needs effin flugsund eniveis?
— Birgitta (@Birgitt87451161) January 26, 2022
er flugsund yfirhöfuð kennt??? ég lærði aldrei flugsund á mínum 10 ára grunnskólasundsferli
— snjólaug (@snjoula) January 25, 2022
Ég skil ekki afhverju maður þarf ná tökum á flugsundi, fékk alltaf í bakið þegar ég reyndi og læstist í bakinu eitt skipti. Flugsund er morðtæki og ætti vera val hvort nemendur vilja læra þau sundtök
— Maggi Jensson 🇮🇸🇫🇴 (@JenssonMaggi) January 24, 2022
Hugsar en um að ég þurfti að leggja mig allan fram til að ná flugsundi í tíunda bekk. Hef ekki synt flugsund síðan… pic.twitter.com/DT3vWfpzm1
— Óli Valur Pétursson 🇵🇸 (@oli_valur) July 23, 2021
Hlaupa í skítakulda í níðþröngri Speedo út í laug. Vona að karljúllurnar veki sem minnsta athygli. Gleypa mikið vatn. Uppúr og heim.
— Haukur Viðar (@hvalfredsson) June 23, 2021
Alveg hræðilegt. Hætti að mæta þegar ég var komin upp í unglingadeild (um leið og ég komst upp með það án þess að það yrði hringt heim), skrópaði í allt nema prófin. Það gleður mig að heyra að það sé verið að íhuga að koma til móts við börnin.
— ⚔ e-bet (@jtebasile) June 23, 2021
Leið ömurlega. Kennari öskraði stanslaust á okkur, ég synti hægt og tímataka allra sett upp á vegg til að bera saman. Var skömmuð fyrir að synda ekki hraðar og pressað á að ég bætti mig. Ég fór kvíðin i hvern einasta sundtíma, æfði mig á kvöldin með pabba í breiðholtslaug😵💫
— Hulda Tölgyes (@hulda_tolgyes) June 23, 2021