Ólafur Halldórsson rekur Björt sýn sem er styrktarfélag fyrir Ikhlaas munaðarleysingjaheimilið í Oyugis, Keníu. Það er nánast sjálfsprottið og úr sér sprottið munaðarleysingja heimili, skammt frá Viktoríuvatni.
Inga Jóna Pálsdóttir, vinkona Ólafs sem búsett er í nágrenni við Nairobi, höfuðborg Keníu, deildi í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún greindi frá því að Ólafur væri með malaríu á fjórða stigi.
„Læknirinn sagði í morgun að Óli fékk ALLA fylgikvilla sem hægt er að fá nema heilaskemmd,“ segir Inga en hún veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um málið.
Inga segir malaríuna hafa farið í nýrun, lifrina og blóðsykururinn. Þá sé mettun allt of lág auk þess sem fleira er að. „Að sjá þennann aktíva mann sem er alltaf á ferðinni og getur ekki setið kyrr í mínútu liggja svona veikann á sjúkrahúsi sló mig illa. Hann er enn á gjörgæslu en læknirinn segir að ef hann heldur svona áfram smátt og smátt þá muni hann ná sér,“ segir hún.
Inga rifjar það þá upp þegar hún kynntist Ólafi. „Fyrir vel rúmu ári síðan í Keníu, kynntist ég þessu eðal eintaki af manni. Hann var þá ný búin að rífa sig frá samstarfi með spilltum einstaklingi sem rak barnaheimili. Eftir að hann komst að þeim svikum gaf hann þeim manni og öllum hans líkum hér úti mið fingurinn hátt í loft upp,“ segir hún.
„Í þeim hluta Keníu sem hann býr er enn mikið trúað á galdra og álög og fólki haldið niðri en hann hefur aldrei látið það á sig fá. Keypti land (sem var sagt að væri reimt) með góðu húsi á góðu verði og hefur komið upp sínu eigin heimili með skóla og segir „hér búa allir menn og draugar saman i sátt og samlyndi“. Börn sem fundist hafa í ruslatunnu, sum lokuð inni eftir hræðilegar misþyrmingar önnur misnotuð og sum algjörir einstæðingar og á götunni, að sjá þau braggast og dafna smátt og smátt, dansa, syngja, hlægja og njóta hjá Björt sýn er alveg einstakt.“
Inga segir Ólaf ganga langt fyrir börnin sem Björt sýn hjálpar. „Óli hikar ekki við að fara í fangelsi fyrir þau og rífa kjaft ef þess hefur þurft. Hann er alveg ótrúlegur karakter, rosalega skemmtilegur, sérvitur á köflum, þrjóskur fyrir allan peninginn, svo réttsýnn og þolir ekkert kjaftæði og segir það óhikað framan í þig á góðan hátt,“ segir hún.
Ástæðan fyrir því að Inga deilir þessari sögu er sú að hún vill hjálpa Ólafi á meðan hann er í þessari stöðu. Ólafur hefur þó ekki áhyggjur af sjálfum sér heldur af börnunum sínum.
„Það sem lýsir honum svo vel er að þegar dauðinn stóð við rúmgaflinn hjá honum og hann viðurkenndi að hann væri að gefast upp þá virtist vera honum efst í huga börnin hans heima svo langt í burtu og börnin hans hjá Björt sýn, hvað verður um þau spurði hann?“
Inga ákvað því að hvetja fólk til þess að styrkja Björt sýn með frjálsum framlögum. „Ég gef mér það bessaleyfi að pósta þessu hér og set inn reikningsnúmerið hjá Björt sýn með ef einhverjir eru aflögufærir, margar 500kr ná langt,“ segir hún en reikningurinn er nú þegar komin í 300.000.
Fyrir þá sem hafa efasemdir segir hún að tryggingarnar borgi hluta þegar hann kemur heim en á meðan sé reikningur heimilisins, sem átti að fara í mat og nauðsynjar, að tæmast.
Kennitala: 690818-1320
Reikningsnúmer: 0133-26-014491
„Megið endilega deila,“ segir Inga svo að lokum.