Karlmaður fannst látinn í sjónum norðan Sæbrautar, skammt frá Sólfarinu, um hálftvöleytið í dag. Svo virðist sem um sé að ræða skipverja sem leitað var fyrr í dag.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að leit hafi staðið yfir eftir að tilkynnt var um mannlausan bát, sem fannst í fjörunni í Engey á ellefta tímanum í morgun.
Þá segir í tilkynningunni: „Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“
Tilkynning barst frá Landhelgisgæslunni kl. 13:50 í dag þess efnis að skipverjinn sem leitað var að væri fundinn. Ekki var tekið fram í þeirri tilkynningu að maðurinn væri látinn.