fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

13 ára drengur settur á langan biðlista þrátt fyrir ítrekaðar sjálfsvígstilraunir – „Ég bið bara um hjálp“

Erla Hlynsdóttir
Miðvikudaginn 26. janúar 2022 13:45

mynd/ÞÖK

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrettán ára sonur Hörpu Henrysdóttur útskrifaðist í gær af BUGL eftir stutta bráðainnlögn í kjölfar þess að hann gerði sjálfsvígstilraun. Þetta er þriðja sjálfsvígstilraun hans á síðustu tíu mánuðum sem hefur krafist sjúkrahússinnlagnar. Harpa segir son sinn nauðsynlega þurfa á meðferðarinnlögn að halda, hann er á biðlista en biðin er líklega tíu til tólf mánuðir. Hún ákallar heilbrigðisráðherra og segir óboðlegt að börn með alvarlegan geðrænan vanda, jafnvel í lífshættu, séu sett á biðlista.

Harpa segir að það hafi verið síðla árs 2019, þegar sonur hennar var ellefu ára gamall, sem hann sagði í fyrsta sinn við hana að hann langaði ekki að lifa lengur. Fjölskyldan var þá nýbúin að flytja á milli landa, heim til Íslands, og hann var búinn að hlakka mikið til.

„Við finnum um haustið að hann var orðinn aðeins þyngri en venjulega en hugsuðum að þetta væri kannski spennufall, að það hafi ekki staðist væntingar að flytja aftur heim. Hann hafði séð fyrir sér að allt yrði svo æðislegt en síðan var lífið bara hversdagslegt líka á Íslandi. Við sáum að hann var ekki hress en höfðum engar sérstakar áhyggjur. Það var síðan í nóvember sem hann sagði þetta við mig og þá fóru að renna á okkur tvær grímur.“

Í framhaldinu hafi þau fengið aðstoð frá hjúkrunarfræðingi skólans, fjallað var um málið í barnageðteyminu í bæjarfélaginu þeirra og hann fór í nokkra sálfræðitíma. „En ekkert gerist. Ári seinna fer þetta að verða alvarlegra og hann fer að stunda sjálfskaða. Alltaf er fólkið í geðteyminu til staðar og styður okkur vel.“

Hræddur um að gera sér eitthvað

Það var farið að vera erfitt að koma honum í skólann og Harpa rifjar upp erfiða stund í febrúar á síðasta ári. „Í eitt skiptið sem ég kem honum ekki í skólann endar það á því að hann biður mig að fara ekki í vinnuna því hann sé hræddur við að gera sér eitthvað ef ég fari,“ segir hún.

Þá var strax haft samband við bráðadeildina á BUGL og honum boðið viðtal daginn eftir. Fjölskyldan er búsett á Vestfjörðum en þau lögðu strax af stað. „Hann var þá lagður inn í bráðainnlögn í þrjá daga. Ég man að ég var hissa á því hvað mér fannst vel tekið á móti okkur því maður hafði heyrt að þetta væri allt mjög kuldalegt. Við vorum rosalega ánægð með allt, og ég hef alltaf verið ánægð með allt sem er gert fyrir okkur. Hver einasti starfsmaður var allur af vilja gerður til að hjálpa okkur eftir bestu getu. Það er bara kerfið sem segir Nei,“ segir hún.

Starfsfólk BUGL hafi sannarlega áttað sig á því að drengurinn glímdi við alvarlega vanlíðan en það þurfti að útskrifa hann eftir þessa þrjá daga því ekki var neitt pláss. „Innan við þremur vikum seinna gerði hann fyrstu sjálfsvígstilraunina. Hann var þá í sjöunda bekk.“

Gerist ekki fyrir mitt barn

Þrátt fyrir það sem á undan var gengið var þetta sannarlega mikið áfall. „Okkur brá rosalega. Þó þetta hafi kannski verið yfirvofandi þá var þetta algjört sjokk. Það er annað að tala um þessa hluti en að taka skrefið og framkvæma. Ég trúði því aldrei að þetta kæmi fyrir mitt barn. Það gerir það enginn,“ segir hún.

Þau fóru á Sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem vel var tekið á móti þeim og starfsfólkið til fyrirmyndar. „Úrræðaleysið er samt svo mikið. Einmitt þarna var ófært vegna veðurs þannig að við komumst ekki suður. Það var ófært í tvo daga en þá þótti síðan ekki ástæða til að leggja hann inn á BUGL því það voru liðnir tveir dagar. Samt voru bara þrjár vikur síðan hann útskrifaðist þaðan úr bráðainnlögninni.“

Harpa segir að hann hafi ekki farið í skólann í margar vikur eftir þessa fyrstu sjálfsvígstilraun. Drengurinn á tvö heimili, hjá sitthvoru foreldrinu, og afar gott stuðningsnet í kring um sig sem hún er þakklát fyrir og segir sannarlega ekki sjálfgefið. Allir lögðust á eitt að hlúa að drengnum. Foreldar, ömmur, afar og vinir.

Erfitt að fá bara númer í röðinni

„Það var bjartara yfir honum í sumar. Við eigum fjölskylduparadís á Hornströndum þar sem okkur líður mjög vel. Þar er ekkert rafmagn eða Internet og við dvöldum þar lengi í sumar og leið vel. Hann var nokkuð brattur í haust en það fór fljótt niður á við. Hann gerði aftur sjálfsvígstilraun í október og fékk þá bráðainnlögn á BUGL í gegn um Sjúkrahúsið á Ísafirði.“

Harpa segir að skólinn hafi tekið vel utan um hann og þar sé allt gert sem hægt er. „Mér finnst það vera rauði þráðurinn. Allir sem við hittum sjá vandann. Það allir af vilja gerðir til að hjálpa honum en þessi kerfislægi vandi kemur í veg fyrir það. Það er ekkert hægt að gera. Það er skelfilegt að fá bara númer í röðinni þegar barnið þitt er í sjálfsvígshættu.“

Síðasta sjálfsvígstilraunin var síðan á mánudaginn fyrir rúmri viku. Hann lagðist inn á BUGL næsta dag og var útskrifaður í gær. „Honum var boðið að koma aftur eftir sex vikur og liggja þá inn í nokkra daga. Það er fínt en það er ekki nóg. Við þurfum meira. Við þurfum öruggan stað fyrir hann þar sem ekki eru gerðar aðrar kröfur á hann en að hann geti greitt úr sínum hugsunum, áföllum og vandamálum. Ég held að til lengri tíma litið þá væri það ódýrast fyrir ríkið að krakkar fengju þjónustu strax. Á síðustu tólf mánuðum hefur vandi sonar míns vaxið í veldisvexti vegna skorts á úrræðum. Ef hann hefði verið gripinn strax þegar hann sagði í fyrsta skipti að hann vildi ekki vera til lengur þá hefði verið hægt að kryfja vandann.“

Hún bendir ennfremur á að hans nánustu verði fljótt líka í þörf fyrir þjónustu því þetta bitnar á öllum í nærumhverfinu. Sjálf getur hún til að mynda takmarkað stundað vinnu.

Með nagandi áhyggjur, allan daginn, alla daga

„Við erum alltaf með nagandi áhyggjur, allan daginn, alla daga. Við skiljum hann ekki eftir einan nema í algjörri neyð. Hann á sautján ára systur og ég hef stundum farið í vinnuna ef hún er ekki að fara í skólann. En að sama skapi get ég ekki hugsað mér að eitthvað gerist á hennar vakt. Hún er auðvitað líka unglingur og ekki hægt að bjóða henni upp á slíkt. Við foreldrarnir skiptumst því á að vera heima ef hann fer ekki í skólann. Við erum alltaf með hnút í maganum ef hann er ekki fyrir augunum á okkur.“

Hún segir að hann hafi virst í þokkalegu standi í síðustu viku, þrátt fyrir að vera hvatvís. „Ég spurði hann hvort það væri í lagi að ég myndi skjótast aðeins í vinnuna og hann sagði það ekkert mál. Þegar ég kom til baka var allt í voða. Þegar við svo ræddum saman seinna sagði ég við hann að hann mætti alveg segja nei þegar ég spyr hann svona. Hann sagði þá að hann hefði ekkert vitað að hann myndi gera neitt. Hann sagði: Ég vissi ekkert þegar ég talaði við þig klukkan hálf tíu að ég myndi gera þetta klukkan tólf.““

Og Harpa segist alltaf vera á nálum.

Hún er úrkula vonar, hrædd og ákallar heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson. „Mér er sama hvernig það verður gert, við hljótum að geta sinnt þessum börnum. Það hlýtur að vera ofarlega á forgangslista að börn með geðrænan vanda þurfi ekki að bíða eftir þjónustu. Mitt barn er ekki það eina í þessari stöðu. Það eru fleiri börn í hans stöðu, fleiri börn í verri stöðu. Ég bið bara um hjálp.“

DV hefur sent fyrirspurn til heilbrigðisráðherra vegna málsins og birtir svör um leið og þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“
Fréttir
Í gær

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum

 Fiskikóngurinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að gera þetta til að „skíta ekki upp á bak“ í komandi kosningum
Fréttir
Í gær

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin
Fréttir
Í gær

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings

Fyrirtæki krafði Oddfellowregluna um á annan tug milljóna króna án nokkurs samnings
Fréttir
Í gær

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé

Eftirlýstur frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins dregur sig í hlé