Þann 20. janúar síðastliðinn var kona sakfelld í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að hafa reynt að stela gallabuxum úr Lindex á Glerártorgi Akureyri.
Atvikið átti sér stað þann 15. apríl á síðasta ári. Konan reif þjófavörn af gallabuxum að verðmæti tæpar 9.000 krónur, klæddi sig í buxurnar en starfsmenn verslunarinnar tóku eftir athæfi hennar og tóku af henni buxurnar.
Konan var ekki viðstödd réttarhöldin en henni hafði verið birt fyrirkall um þau. Hún hefur áður gerst brotleg við lög og hlaut dóm árið 2016, meðal annars fyrir þjófnað. Hún hlaut einnig dóm haustið 2019 og með þessu broti rauf hún skilorð vegna þess dóms.
Var konan dæmd í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi. Enginn málskostnaður hlaust af málinu.