Framkvæmdastjórn SÁÁ hefur gefið út yfirlýsingu vegna fréttaflutnings um vændiskaup Einars Hermannssonar, fráfarandi formanni samtakanna.
Í yfirlýsingunni segist stjórnin fordæma hegðun Einars. Þá segir einnig að umfram allt standi stjórnin með þolendum.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:
Framkvæmdastjórn SÁÁ fordæmir hegðun fyrrum formanns samtakanna. Traust og trúnaður skjólstæðinga okkar, starfsmanna og landsmanna allra er lykillinn að tilveru SÁÁ. Undir því trausti viljum við rísa. Við munum ráðast í gagngera skoðun og nauðsynlegar umbætur á öllu okkar starfi og kappkosta að tryggja öryggi skjólstæðinga okkar sem margir eru í viðkvæmri stöðu.
Framkvæmdastjórn SÁÁ mun boða til fundar í aðalstjórn SÁÁ föstudaginn 28. janúar næstkomandi kl. 17.15 til að kjósa nýjan formann samtakanna.
Umfram allt stöndum við með þolendum.