Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Runólfi að hann telji að á Covid-göngudeildinni verði að draga úr þjónustu við þá sem finna ekki fyrir neinum veikindum svo hægt sé að beina sjónunum að þeim sem eru veikastir.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að hann telji að forsendur núgildandi sóttvarnaregla séu brostnar. „Við verðum alltaf að taka það alvarlega þegar við þrengjum að frelsi fólks. Ef rökin sem við notuðum til þess halda ekki lengur verðum við að bregðast við,“ er haft eftir honum.
Í gær birtu Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítalans, grein á vef Vísis þar sem þau sögðu að afléttingar á sóttvarnaaðgerðum væru framundan. Runólfur sagði að sér lítist ágætlega á stöðuna og sé sammála því sem komi fram í grein Willums og Guðlaugar.
Hann sagði stærstan vandan vera veikindi starfsfólks Landspítalans og einnig sé vandi vegna smita sem koma upp innan deilda á spítalanum.